Átti ekki að lifa af nóttina

Minnstu munaði að Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, bæri beinin …
Minnstu munaði að Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, bæri beinin í Bretaveldi þegar hann bjó þar ásamt fjölskyldu sinni fyrir um tuttugu árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Minnstu munaði að Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, bæri beinin í Bretaveldi þegar hann bjó þar ásamt fjölskyldu sinni fyrir um tuttugu árum.

Það byrjaði með sárum verk í vinstri rist á laugardagskvöldi. Ekkert hafði komið fyrir og Heimi fannst því ótrúlegt að hann væri tognaður eða brotinn. Brot var þó greining lækna og hann settur í göngugifs. Verkurinn versnaði bara og versnaði og þegar hann var farinn að pissa svörtu á fimmtudegi var brunað með hann aftur á spítala. Eftir dúk og disk kom svo greiningin, blóðeitrun, sem komin var út um allan líkama.

„Læknarnir dældu í mig sýklalyfjum en áttu ekki von á því að ég myndi lifa af nóttina. Það kemur fram í sjúkraskýrslunni sem ég fékk síðar að sjá. Sem betur fer sluppu nýrun við sýkinguna og það varð mér til lífs,“ segir hann.

Heimir var marga mánuði að ná sér og fóturinn er raunar varanlega skaddaður. „Læknarnir úti vildu fá mig á læknaráðstefnur til að lýsa upplifuninni og kvölunum, enda hefði ég ekki átt að lifa þetta af, en ekki varð reyndar af því. Ég hef sýnt læknum hér heima þessi gögn og þeir segjast bara hafa séð svona myndir í bókum af sjúklingum sem létust eftir svona rosaleg veikindi. Það er aldrei of oft brýnt fyrir heilbrigðisstarfsmönnum að kanna þennan möguleika, hvort um blóðeitrun sé að ræða. Í raun var það Rúna (eiginkona Heimis) sem bjargaði lífi mínu, með því að heimta að mér yrði sinnt á spítalanum sem ekki hafði verið gert eftir að ég hafði legið þar í heilan dag. Hún hótaði að taka málið lengra sem varð til þess að mér var gaumur gefinn og þessum sýklalyfjum á endanum dælt í mig.“

Ítarlega er rætt við Heimi um íþróttaferil hans, fjölmiðlaferilinn og sitthvað fleira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert