Fór snemma að búa til sín eigin blöð

Guðmundur Magnússon tók við kveðjugjöf frá Karli Blöndal aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins.
Guðmundur Magnússon tók við kveðjugjöf frá Karli Blöndal aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst ég hafa verið tengdur Morgunblaðinu meira eða minna alla ævi. Þegar ég var á fimmta ári lærði ég að lesa á blaðið, það uppgötvaðist allt í einu að ég væri orðinn læs og það var rokið með mig til afa, til að láta hann sjá og heyra þetta undur,“ segir Guðmundur Magnússon, blaðamaður og sagnfræðingur, sem lætur nú af störfum hjá Morgunblaðinu, en hann hefur átt fjölbreyttan feril sem blaðamaður.

„Ég er ekki að fara að setjast í helgan stein, enda enn þokkalega ungur í anda og að árum, en mig langar til að hafa meiri tíma til að sinna bókaskrifum og fræðistörfum.“ Guðmundur minnist þess að þegar hann var stálpaður krakki las hann Morgunblaðið spjaldanna á milli.

Kveðjuhóf var haldið fyrir Guðmund á föstudag í Hádegismóum.
Kveðjuhóf var haldið fyrir Guðmund á föstudag í Hádegismóum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sé enn fyrir mér fréttir sem vöktu athygli mína, þótt ég væri bara barn. Ég lifði mig að einhverju leyti inn í veröldina í gegnum Moggann. Þetta var á þeim tíma þegar dagblöðin höfðu sterkt vægi í þjóðlífinu, enda var sjónvarpið varla komið til sögunnar. Mogginn var stór hluti af tilveru minni en reyndar önnur blöð líka, t.d. Vísir og Þjóðviljinn sem komu á heimilið. Eitt af því sem átti þátt í því að vekja áhuga minn á blaðamennsku var að ég las sem krakki bók Árna Óla, blaðamanns á Morgunblaðinu, sem hét Erill og ferill blaðamanns í hálfa öld. Ég heillaðist af frásögnum hans af störfum blaðamanna. Ég byrjaði mjög snemma að búa til mín eigin blöð, fékk blaðapappír í Ísafoldarprentsmiðju og teiknaði upp blöð og skrifaði, í einu eintaki. Upp úr því myndaðist þessi baktería fyrir blaðamennskunni. Ég gaf líka út skólablöð, ritstýrði Stúdentablaðinu og var aðeins rúmlega tvítugur þegar ég fékk sumarvinnu á Dagblaðinu. Blaðamennska hefur ætíð verið stór hluti af mínu lífi.“

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í gær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert