Hagræðingar skili nemendum ekki betra námi

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir mörgum spurningum ósvarað …
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir mörgum spurningum ósvarað varðandi hagræðingu í framhaldsskólum. Ljósmynd/Aðsend

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að fyrirhugaðar hagræðingar í rekstri framhaldsskóla muni ekki skila nemendum skólanna betra námi.

Nýlega skipaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, stýrihóp um eflingu framhaldsskóla.

Sam­band ís­lenskra fram­halds­skóla­nema (SÍF) sagði í kjölfarið að stefna stjórn­valda væri að sam­eina Tækni­skól­ann og Flens­borg­ar­skól­ann, og sam­eina Kvenna­skól­ann og Mennta­skól­ann við Sund. 

Í tilkynningu frá kenn­ara­fé­lagi Kvenna­skól­ans í Reykja­vík er mót­mæl­t þeirri „aðför að far­sæld barna sem felst í þess­um áform­um“. 

„Þessar fréttir hafa skollið dálítið harkalega á kennurum í landinu og öllu skólafólki í framhaldsskólum,“ segir Guðjón Hreinn í samtali við mbl.is.

„Þetta kemur bratt að og mörgum spurningum er ósvarað.“

Risaskólar í andstöðu við markmið ráðuneytis

Fulltrúar úr stjórn Félags framhaldsskólakennara munu funda með stýrihópnum á miðvikudag.

„Til þess að fá betri upplýsingar frá þeim um hversu langt þau eru komin í þessu ferli og hvað stendur í raun og veru til,“ segir Guðjón.

Á vef Stjórnarráðsins koma fram fyrirætlanir um einhvers konar sameiningar átta framhaldsskóla.

Guðjón segir að ef markmiðið sé að búa til risaskóla þar sem hvert rými er fullnýtt sé það í andstöðu við markmið menntamálaráðuneytisins um að veita eins góðan stuðning og hægt er.

„Við erum alltaf að taka við fleiri nemendum sem þurfa sérstakan stuðning. Bæði fólk sem talar ekki íslensku að móðurmáli og starfsbrautanemendur sem eiga við hömlun að stríða,“ segir Guðjón.

Hann segir einstaklingsbundnu þjónustuna, sem er fyrsta þrep í þrepaskiptum stuðningi, skipta mestu máli.

Stytting stúdentsnáms vanhugsuð

Guðjón bendir á að stutt sé síðan nám í framhaldsskóla var stytt úr fjórum árum í þrjú og sé því starfsfólk skólanna viðbúið ýmsu.

Guðjón segir einstaklingsbundnu þjónustuna, sem er fyrsta þrep í þrepaskiptum …
Guðjón segir einstaklingsbundnu þjónustuna, sem er fyrsta þrep í þrepaskiptum stuðningi, skipta mestu máli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stór hluti starfsfólks í skólum og nemenda sjálfra þykir þessi stytting til stúdentsprófs hafa verið mjög vanhugsuð. Hvað þá ef að á að fara að gera enn frekari hagræðingar,“ segir Guðjón.

Hann segir styttinguna hafa orðið til þess að auka álag í framhaldsskólum landsins og algengt sé að nemendur heltist úr tómstundum og íþróttum vegna álags í skólunum.

„Þessar hagræðingar eru ekki að fara að skila nemendum betra námi. Það er það sem við óttumst,“ segir Guðjón.

Hafi áhrif á val nemenda á skóla

Guðjón segir innritun nemenda fyrir haustið vera langt komna en henni ljúki í júní víðast hvar. 

„Það er alveg viðbúið að þetta hafi töluverð áhrif á áætlanir nemenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert