Minntust þeirra er fallið hafa frá

Af ljósastund Styrktarleika 2022.
Af ljósastund Styrktarleika 2022. mbl.is/Óttar Geirsson

Styrkleikar Krabbameinsfélagsins voru haldnir í annað sinn á Selfossi um helgina. Styrkleikarnir eru opnir öllum, ókeypis og eru haldnir til þess að sýna stuðning og safna fé í þágu rannsókna, krabbameinssjúkra og aðstandenda þeirra.

Styrkleikarnir eru sólarhringsboðhlaup og fjölskylduvæn samverustund þar sem hver sem er getur skráð sig. Leikarnir ganga út á það að lið haldi boðhlaupskefli á hreyfingu í heilan sólarhring með því að til dæmis ganga, skokka eða sitja í kerru. Ekki er nauðsynlegt að vera skráður í lið. Þeir sem ekki eru hluti af liði verða með í svokölluðu landsliði.

Í gærkvöldi var svo haldin ljósastund. Þá var kveikt á kertum í ljósberum og þeirra minnst er fallið hafa frá og hugsað til þeirra sem takast á við veikindi.

„Fyrstu Styrkleikarnir fóru fram á Selfossi í fyrra þar sem hátt í 600 manns gengu 19.812 hringi sem jafngildir 4.755 km. Til að setja þá vegalengd í samhengi var farið rúmlega þrjá og hálfan hring í kringum Ísland á þessum sólarhring. Auk þess litu hátt í 1000 manns við í Íþróttahöllinni á meðan á viðburðinum stóð, fylgdust með dagskránni og gengu nokkra hringi í leiðinni,“ segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert