Plokkað var víða um land í dag þegar plokkdagurinn var haldinn hátíðlegur í sjötta sinn. Umhverfisráðherra setti daginn formlega við Gufunesbæinn í Grafarvogi. Aldrei hafa fleiri tekið þátt.
Fjöldi viðburða tengdir deginum fóru fram um allt land og víða lék veðrið við plokkara. Umhverfisráðherra afhenti börnum í Sjálandsskóla plokktangir í tilefni þess að skólinn hlaut umhverfisverðlaunin Kuðunginn fyrir framgang í umhverfismálum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Meðal bakhjarla dagsins eru Rótarý á Íslandi, Landsvirkjun og Umhverfisráðuneytið en fyrsti plokkdagurinn var haldinn árið 2018.
„Stóri plokkdagurinn skorar á alla að plokka í glæra poka og flokka plast í sér poka. Valdar verslanir Krónunnar og valdar stöðvar Orkunnar munu bjóða plokkurum upp á að skila til sín plokki í glærum pokum í opna gáma merkta Stóra plokkdeginum yfir helgina. Þá fagnar SORPA plokkurum á endurvinnslustöðvum sínum en rétt að hafa í huga að það er opið til klukkan 16:00 þann 30. apríl, lokað 1. maí en opið aftur samkvæmt venju þriðjudaginn 2. maí,“ segir í tilkynningu.
Myndir frá deginum má sjá hér að neðan.