Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var send ásamt sjúkrabifreið í samkvæmi í nótt þar sem að einstaklingur hafði misst meðvitund. Á vettvangi var mikil ölvun gesta og voru sumir gestanna ekki sáttir með veru viðbragðsaðila á vettvangi.
Í dagbók lögreglu segir að sumir gestanna reyndu að hindra lögreglu og sjúkraflutningamenn við störf með því halda í sjúkrabörur, hindra aðgang að lyftu ásamt því að ausa fúkyrðum yfir lögreglumenn.
„Einn aðili hafði sig í mestu og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa,“ segir í dagbókinni og þá fundust fíkniefni í fórum hans við komuna á lögreglustöð.
Þá sáu lögreglumenn við eftirlit hvar ökumaður var upptekinn af farsíma sínum við akstur.
Í dagbókinni kemur fram að litlu mátti muna að ökumaðurinn hefði ekið á vegfaranda á rafmagnshlaupahjóli en ökumanninum rétt tókst að nauðhemla.
Ökumaðurinn viðurkenndi brot sitt og verður hann kærður fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar.