Ríkið greiði sextugum kennara milljón

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða sextugum kennara eina milljón í miskabætur eftir að kennarinn var ekki boðaður í atvinnuviðtal vegna starfs sem hann sótti um við Menntaskólann við Sund (MS).

Auglýst var eftir kennara í fullt starf til að sinna kennslu í námsgreininni Lýðræðisvitund og siðferði í júlí árið 2020.

Alls bárust 21 umsókn um starfið og voru 16 umsækjendur með réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi, ellefu konur og fimm karlar. Ákveðið var að kalla fjóra umsækjendur í viðtal, þrjár konur og einn karl. Stefnandi var ekki þar á meðal.

Að loknum viðtölum var ákveðið að bjóða konu starfið, sem hún þáði. 

Mismunað eftir aldri

Stefnandi kærði málið til kærunefndar jafnréttismála í mars árið 2021 þar sem hann taldi MS hafa mismunað honum eftir aldri en hann var sextugur á þeim tíma. Kennarinn vísaði til þess að skýrt hefði komið fram af hálfu skólans að stefnandi hefði ekki komið til álita í starfið vegna aldurs. 

Í dómi héraðsdóms segir að kennarinn hafi margþætta kennslureynslu á öllum skólastigum í fjölda ára, hefði tilskilin kennsluréttindi og mjög góða menntun á því sviði sem um ræddi. 

Skólinn hafnaði því að lög hefðu verið brotin og taldi að við ákvörðun um það hvort umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal eða ekki hefði verið horft til umsóknar, menntunarstigs og faggreinar, starfsréttinda, reynslu og kennsluskyldu viðkomandi í fullu starfi.

Áfanginn lagður niður

Sú sem hefði verið ráðin hefði haft langa háskólagöngu að baki og verið með próf í lýðræðis- og mannréttindafræðum auk kennsluréttinda og kennslureynslu. Teldi skólinn að hæfasti umsækjandinn hefði verið ráðinn.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að umræddur áfangi hafi verið lagður niður frá og með haustinu 2022. 

Kennarinn krafðist þess að ríkið yrði dæmt til að greiða honum rúmar 24 milljónir í skaðabætur og rúma milljón í miskabætur. 

Dómari féllst á að greiða honum miskabæturnar vegna fjártjóns og þá skal ríkið greiða kennaranum 800 þúsund krónur í málskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert