Ríkissáttasemjari boðar til fundar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samsett mynd

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar samningsaðila í kjaraviðræðum BSRB og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) á þriðjudaginn.

Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is. Hún segir samningsaðila ekki hafa talað saman í rúma tíu daga öðru vísi en í gegnum fjölmiðla.

„Sáttasemjari er búinn að boða til fundar á þriðjudaginn 2. maí. Við vitum ekki hvort að afstaðan hafi breyst. Við höfum áhyggjur af því að þetta byggi á röngum forsendum miðað við þær lögfræðilegu röksemdir sem sambandið [SNS] er að byggja á,“ segir Sonja Ýr.

Afgerandi stuðningur verkfallsaðgerða

Í gær var tilkynnt að rúmlega 90% félagsmanna BSRB í fjórum sveitarfélögum sem kjarasamningarnir snúa að hafi kosið með verkfallsaðgerðum.

„Það er mjög afgerandi stuðningur við verkfallsboðunum sem sýnir það að fólk er með þá kröfu að það þurfi að leiðrétta þetta misrétti eins og við höfum verið að benda á,“ segir Sonja Ýr.

Á hádegi á föstudag hófust frekari atkvæðagreiðslur.

„Þá er verið að horfa til þess að leggja niður störf í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Ölfusi, Árborg, Hveragerði og Vestmannaeyjum,“ segir Sonja.

Tæplega þúsund manns í verkfall í fyrstu lotu

977 manns fara í verkfall 15. og 16. maí í fyrstu lotu að óbreyttu. Viku seinna verða í kringum 1.500 manns sem leggja niður störf.

„Þetta eru 11 aðildarfélög BSRB. Undir þessa kjarasamninga sem kjaradeilan snýr að eru um 7.000 manns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert