Í æfingasiglingu björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein úti fyrir Sandgerði í dag sprakk kælivatnsrör fyrir aðra aðalvél skipsins með þeim afleiðingum að vélarrúmið fylltist af gufu sem svo virkjaði brunakerfi skipsins. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Drap áhöfnin á báðum vélunum samkvæmt fyrirframákveðnu verklagi og lokaði öllum rýmum. Var vélarrúmið svo reykræst er ljóst var orðið að ekki var um eld að ræða. Ekki var unnt að nota þá vélina, er háð er kælivatni úr sprungna rörinu, svo hin var ræst og haldið til Sandgerðishafnar.
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason var kallað út frá Grindavík en reyndist ekki þörf á aðstoð þaðan er á hólminn var komið. Viðgerð á Hannesi blasir nú við og ljóst að ekkert björgunarskip verður til taks í Sandgerði í fjarveru hans.
Getur upplýsingafulltrúi Landsbjargar þess í tilkynningunni, til fróðleiks og skemmtunar, að Hannes hafi áður borið nafnið Sigurvin og verið smíðaður árið 1988. Var Sigurvin staðsettur á Siglufirði en þegar nýtt björgunarskip var afhent þar nyrðra fékk björgunarsveitin í Sandgerði Sigurvin til notkunar.
„Stóru átaki við að endurnýja öll 13 skip félagsins, um allt land, hefur verið hrint af stað. Samið hefur verið um smíði þriggja skipa, og búið er að afhenda tvö, en það þriðja verður afhent í haust,“ segir í tilkynningunni.
Sýni þetta atvik, svo ekki verði um villst, þá brýnu nauðsyn að endurnýja björgunarskipaflotann og það jafnvel hraðar en áætlanir geri ráð fyrir. „Talsvert vantar enn upp á að Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi fullfjármagnað endurnýjun allra skipanna, en um tvo milljarða vantar upp á að klára verkefnið,“ segir að lokum.