Það mun aldrei öllum líka við mann

Heimir kveðst oft hafa fengið skammir fyrir að spyrja viðkvæmra …
Heimir kveðst oft hafa fengið skammir fyrir að spyrja viðkvæmra spurninga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Uppskriftin er að vera bara maður sjálfur. Það mun hvort eð er aldrei öllum líka við mann. Mestu mistökin í sjónvarpi eða útvarpi eru að reyna að vera hátíðlegur og einhver annar en maður er. Það á við um stjórnmálamenn líka. Áhorfandinn eða hlustandinn er enginn bjáni; hann sér strax í gegnum svona lagað.“

Þetta segir Heimir Karlsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

„Það er líka mikill misskilningur þegar fólk fer að halda að það sé yfir aðra hafið bara af því að það er komið í sjónvarp eða útvarp. Þetta á við um suma blaðamenn líka. Fátt er meira þreytandi í fjölmiðlum en sjálfumglaðir besserwisserar sem við þá starfa. Ég vona að ég sé ekki einn af þeim!“

Heimir kveðst oft hafa fengið skammir fyrir að spyrja viðkvæmra spurninga. „Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa og þýði það að ganga þurfi að viðmælandanum verður bara svo að vera. Það átta sig heldur ekki allir á því að spurningarnar þurfa alls ekki að endurspegla mínar skoðanir, oft er maður bara að leita svara við spurningum sem brenna á almenningi. Erfiðustu viðtölin mín eru yfirleitt við fólk sem ég er alveg sammála.“

Hann kveðst líka stundum fá orð í eyra fyrir að hleypa neikvæðu fólki í loftið. „Þá segi ég á móti að þeir sem kvarta yfir einhverju sem ekki er í lagi séu í raun jákvæðir. Í mínum huga er það ekki neikvæðni heldur jákvæðni. Þetta fólk vill breyta einhverju til hins betra. Þannig verða hinir neikvæðu sem sagt jákvæðir – og hinir „jákvæðu“ geta á stundum verið hinir neikvæðu með því að vera þá meðvirkir ef þeir vilja aldrei styggja neinn eða breyta neinu til hins betra því allt er nógu gott.“

Ítarlega er rætt við Heimi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert