Ljóst er að Douglas DC-3-flugvélin Páll Sveinsson fer ekki í loftið í sumar og verður þetta fjórða sumarið sem hún situr föst á jörðu niðri. Vélin er varðveitt á Flugsafni Íslands á Akureyri og dregur þar að sér athygli sýningargesta.
Komið er að miklu viðhaldi á Páli sem ekki hefur verið hægt að sinna síðustu ár. Stjórn Þristavinafélagins reyndi fyrir ári að afla fjármagns til viðgerða til að koma vélinni í loftið en tókst ekki.
Tómas Dagur Helgason, formaður Þristavinafélagsins, segir mikilvægt að koma vélinni í flughæft ástand og fljúga henni. „Nei, hún er ekki að grotna niður. Hún er í góðri geymslu í Flugsafni Íslands á Akureyri og er þar til sýnis. Það er hins vegar vont þegar flugvélar og önnur tæki sem eiga að snúast standa lengi óhreyfð. Það tekur lengri tíma að koma þeim í gang og allskonar kvillar geta komið fram.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 27. apríl.