Ríflega 10.300 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins í fyrra en fluttu þá frá landinu. Það er mesti fjöldi á einu ári í sögu landsins. Á hinn bóginn fluttu 580 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu í fyrra en fluttu þá til landsins. Það er enn eitt árið á þessari öld sem brottfluttir íslenskir ríkisborgarar eru fleiri en aðfluttir.
Þróun búferlaflutninga frá aldamótum er hér sýnd á grafi. Skal tekið fram að tölur fyrir fyrsta ársfjórðung eru bráðabirgðatölur.
Samkvæmt þeim fluttu um 2.800 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hins vegar fluttu um 90 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en fluttu þá til þess.
Alls hafa nú um 68.400 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því á þessari öld. Það samsvarar samanlögðum íbúafjölda Kópavogs og Hafnarfjarðar.
Hins vegar hafa ríflega 11 þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess á öldinni. Það fer nærri íbúafjölda Mosfellsbæjar.
Árið 2022 er sem fyrr segir metár í aðflutningi erlendra ríkisborgara til landsins. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta voru þá 2.450 fleiri en fyrra metárið 2017 og um tvöfalt fleiri en árið 2007 sem er nú í fjórða sæti hvað þetta varðar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út föstudaginn 28. apríl.