Þúsundir hafa flust til landsins í ár

Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 390.830 manns á landinu í lok fyrsta …
Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 390.830 manns á landinu í lok fyrsta ársfjórðungs í ár. Það kann hins vegar að vera nokkurt ofmat, eins og Morgunblaðið hefur bent á. Samkvæmt manntali Hagstofunnar bjuggu hér um 359 þúsund manns í ársbyrjun 2021 eða um tíu þúsund færri en áður var áætlað. Var misræmið meðal annars sagt skýrast af því að brottfluttir væru vantaldir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríflega 10.300 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins í fyrra en fluttu þá frá landinu. Það er mesti fjöldi á einu ári í sögu landsins. Á hinn bóginn fluttu 580 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu í fyrra en fluttu þá til landsins. Það er enn eitt árið á þessari öld sem brottfluttir íslenskir ríkisborgarar eru fleiri en aðfluttir.

Þróun búferlaflutninga frá aldamótum er hér sýnd á grafi. Skal tekið fram að tölur fyrir fyrsta ársfjórðung eru bráðabirgðatölur.

Graf/mbl.is

Samkvæmt þeim fluttu um 2.800 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hins vegar fluttu um 90 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en fluttu þá til þess.

Graf/mbl.is

Alls hafa nú um 68.400 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því á þessari öld. Það samsvarar samanlögðum íbúafjölda Kópavogs og Hafnarfjarðar.

Hins vegar hafa ríflega 11 þúsund fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess á öldinni. Það fer nærri íbúafjölda Mosfellsbæjar.

Graf/mbl.is

Árið 2022 er sem fyrr segir metár í aðflutningi erlendra ríkisborgara til landsins. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta voru þá 2.450 fleiri en fyrra metárið 2017 og um tvöfalt fleiri en árið 2007 sem er nú í fjórða sæti hvað þetta varðar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út föstudaginn 28. apríl. 

 

Aðfluttir erlendir ríkisborgarar eru fleiri en brottfluttir í öllum landshlutum. …
Aðfluttir erlendir ríkisborgarar eru fleiri en brottfluttir í öllum landshlutum. Þessu er öfugt farið hjá íslenskum ríkisborgurum en þar eru brottfluttir fleiri en aðfluttir í öllum landshlutum. Langmest munar um höfuðborgarsvæðið í þeim efnum en þaðan fluttu um 7.140 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess á tímabilinu frá 2000 til 2022. Graf/mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert