„Ég veit varla hvað skal segja, en mér finnst hart að ég skuli fá þyngri dóm en mennirnir, sem hafa verið fundnir sekir,“ sagði Kristján R. Sigurðsson, bílstjóri í Grindavík og eigandi bátsins Ásmundar GK30, í samtali við Morgunblaðið 1. maí 1968.
Í dag eru 55 ár liðin síðan dómur var kveðinn upp í því sem þá var kallað „smyglmálið mikla“ 30. apríl 1968 enda gríðarstórt mál á þess tíma mælikvarða. Fimmmenningar í áhöfn Ásmundar, skipstjóri, stýrimaður, vélstjóri og tveir hásetar, hlutu þriggja mánaða fangelsisdóma, nema skipstjórinn sem hlaut fjóra mánuði, og 950.000 króna sekt hver fyrir aðild sína að málinu.
Málið var einnig þekkt undir nafninu Ásmundarsmyglið og var stærsta smyglmál sem þá hafði komið upp á landinu. Höfðu fimmmenningarnir tekið bátinn á leigu í október 1967 af Kristjáni þeim, sem Morgunblaðið ræddi við. Ásmundur var gerður upptækur ríkissjóði með dómi en sakaruppgjöf þó veitt síðar að tillögu ráðherra.
Kváðust þeir bátsleigjendur ætla að halda til ufsaveiða við Austfirði en sigldu þess í stað til Ostende í Belgíu. Breyttu þeir þar nafnmerkingum á Ásmundi og merktu hann sem Þorleif Rögnvaldsson ÓF en það nafn hafði Ásmundur áður borið.
Höfðu þeir félagar með sér 440.000 krónur í peningum og keyptu 12.000 flöskur af Genever, 120 flöskur af rommi og viskí, 25 kassa af bjór og 50 sígarettukarton. Báru þeir fyrir dómi að milligöngu um áfengiskaupin hefði þáverandi ræðismaður Íslands í Rotterdam haft.
Var svo haldið til Íslands á ný með skipið drekkhlaðið smyglvarningi í stað ufsa og aðfaranótt 19. október sigldi áhöfnin að Gelgjutanga við Elliðavog með öll siglingaljós slökkt. Földu þeir félagar smyglið þar í öðru skipi sem einn þeirra átti ásamt öðrum.
Næstu daga selfluttu mennirnir svo varninginn hvort tveggja í heimahús og geymslu sem þeir höfðu til umráða í Sænska frystihúsinu sem stóð þar sem Seðlabankinn nú stendur en var rifið árið 1981.
Tollgæslan í Reykjavík hafði hins vegar fengið upplýsingar um smyglkaupin frá meginlandinu og voru hún, lögregla og Landhelgisgæsla í viðbragðsstöðu og fylgdust grannt með skipaferðum þótt ekki tækist að grípa áhöfnina glóðvolga á leið til landsins enda villti það löggæslumönnum sýn að Ásmundur skilaði sér ekki til baka til Íslands sem Þorleifur Rögnvaldsson eins og hann hafði komið fyrir sjónir í Ostende.
Reiknaðist ákæruvaldinu til að ákærðu hefðu smyglað til landsins varningi sem lagt hefði sig á 5.200.000 krónur í sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins miðað við verðskrá hennar frá 12. október 1967 og hlutu refsingar í samræmi við það.
Þá gerði ákæruvaldið kröfu um að Ásmundur yrði gerður upptækur ríkissjóði með vísan til 33. greinar þágildandi áfengislaga sem kvað á um að flytti skip hingað til lands áfengi, sem telja mætti verulegan hluta af farmi þess, skyldi skipið gert upptækt með dómi.
Þótti eigandanum Kristjáni þetta súrt í broti enda vissi hann ekki annað en að leigutakarnir væru á ufsaveiðum úti fyrir Austurlandi. „Auk þess sem ég tapa þarna því sem ég hafði eignazt í bátnum,“ sagði Kristján við Morgunblaðið, og fært í letur með zetu að þess tíma rithætti, „verð ég að greiða skuldir honum áhvílandi og reiknast mér svo til við lauslega athugun, að ég fái helmingi þyngri dóm en þeir seku. Þetta er ákaflega hart aðgöngu og ég sé ekki fram á annað en að ég verði að láta gera mig upp,“ sagði hann við blaðið fyrir réttum 55 árum.
Dr. Kristján Eldjárn, forseti Íslands, veitti nafna sínum, Kristjáni R. Sigurðssyni bílstjóra, síðar sakaruppgjöf í málinu að fenginni tillögu dómsmálaráðherra í ríkisráði svo eignaupptökudómurinn kom aldrei til framkvæmda, þótti enda bersýnilega ósanngjarn gagnvart manni sem ekki hafði annað til saka unnið en leigja út bát sinn í góðri trú.