100 ár frá fyrstu kröfugöngunni í Reykjavík

Frá kröfugöngu árið 2020.
Frá kröfugöngu árið 2020. mbl.is/Árni Sæberg

Víða um land verður alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins fagnað með kröfugöngum og fjölbreyttri dagskrá. Yfirskrift dagsins er réttlæti, jöfnuður, velferð. 

Öld er síðan fyrsta kröfugangan var farin í Reykjavík og í ár hefst gangan á Skólavörðuholti klukkan 13 og leggur hún af stað klukkan 13:30.

Henni lýkur á Ingólfstorgi með útifundi sem hefst klukkan 14:10. Fundinum stýrir Magnús Norðdahl og munu Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ flytja ávörp. Að ræðuhöldum loknum leika Dimma og Stefanía Svavars tónlist.

Dagskrá víða um land

Á Akureyri safnast fólk saman við Alþýðuhúsið klukkan 13:30, en hálftíma síðar verður lagt af stað við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar. Þá verður boðið upp á hátíðardagskrá í Menningarhúsinu Hofi að lokinni kröfugöngu. 

Í Borgarnesi verður gengið frá Alþýðuhúsinu, Sæunnargötu 2a að Hjálmakletti þar sem hátíðardagskrá verður í kjölfarið, en meðal annars kemur Sigga Beinteins þar fram. 

Í Stykkishólmi standa verkalýðsfélag Snæfellinga, Kjölur og Sameyki fyrir dagskrá á Hótel Stykkishólmi sem hefst klukkan 13:30.

Á Ísafirði safnast fólk við Alþýðuhúsið og mun kröfugangan leggja af stað þaðan klukkan 14 í heiðursfylgd lögreglu og lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi. Gengið verður að Edinborgarhúsinu þar sem hátíðardagskrá hefst að lokinni göngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert