Víða um land verður alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins fagnað með kröfugöngum og fjölbreyttri dagskrá. Yfirskrift dagsins er réttlæti, jöfnuður, velferð.
Öld er síðan fyrsta kröfugangan var farin í Reykjavík og í ár hefst gangan á Skólavörðuholti klukkan 13 og leggur hún af stað klukkan 13:30.
Henni lýkur á Ingólfstorgi með útifundi sem hefst klukkan 14:10. Fundinum stýrir Magnús Norðdahl og munu Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ flytja ávörp. Að ræðuhöldum loknum leika Dimma og Stefanía Svavars tónlist.
Á Akureyri safnast fólk saman við Alþýðuhúsið klukkan 13:30, en hálftíma síðar verður lagt af stað við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar. Þá verður boðið upp á hátíðardagskrá í Menningarhúsinu Hofi að lokinni kröfugöngu.
Í Borgarnesi verður gengið frá Alþýðuhúsinu, Sæunnargötu 2a að Hjálmakletti þar sem hátíðardagskrá verður í kjölfarið, en meðal annars kemur Sigga Beinteins þar fram.
Í Stykkishólmi standa verkalýðsfélag Snæfellinga, Kjölur og Sameyki fyrir dagskrá á Hótel Stykkishólmi sem hefst klukkan 13:30.
Á Ísafirði safnast fólk við Alþýðuhúsið og mun kröfugangan leggja af stað þaðan klukkan 14 í heiðursfylgd lögreglu og lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi. Gengið verður að Edinborgarhúsinu þar sem hátíðardagskrá hefst að lokinni göngu.