Allt tiltækt slökkvilið kallað út

Um stórbruna er að ræða í gamalli slippstöð í Hafnarfirði.
Um stórbruna er að ræða í gamalli slippstöð í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sendi allar fjórar stöðvar á vettvang vegna stórbruna í gamalli slippstöð í Hafnarfirði nú í kvöld. Vegna vaktaskipta verða enn fleiri kallaðir á staðinn. Útkallið kom um klukkan 20.30. 

Þetta staðfestir Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Hann segir ekki liggja fyrir hvað hafi verið inni í húsinu en slökkviliðið hafi hafist handa við að slökkva eldinn utan frá með slöngum og mónitora sér til halds og trausts. Eins og staðan sé núna líti út fyrir að um altjón sé að ræða. 

Samkvæmt blaðamanni mbl.is eru lögreglubílar og sjúkrabílar á svæðinu auk slökkvibíla en Lárus segist ekki hafa heyrt af því að slys hafi orðið á fólki. Slökkvistörf hafi gengið vel og unnið verði á vettvangi fram eftir kvöldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert