Eldurinn sem kviknaði í Drafnarslipp við Hafnarfjarðarhöfn hefur breiðst út í samliggjandi byggingu við slippinn. Slippurinn er að hruni kominn að sögn sjónarvotts.
Eldur kviknaði í Drafnarslipp á níunda tímanum í kvöld og var allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu kallað til.
Samkvæmt blaðamanni mbl.is eru lögreglubílar og sjúkrabílar á svæðinu auk slökkvibíla en Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld ekki hafa heyrt af því að slys hafi orðið á fólki. Slökkvistörf hafi gengið vel og unnið verði á vettvangi fram eftir kvöldi.