Kostnaður við endurbyggingu Grófarhúss, þar sem Borgarbókasafnið er til húsa, er áætlaður 5.450 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fyrirspurnin var lögð fram í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði 24. mars sl. Svar Eiríks Björns Björgvinssonar sviðsstjóra var lagt fram í ráðinu 21. apríl sl.
Þar kemur að frumkostnaður verkefnisins var áætlaður 4.400 milljónir króna á verðlagi í júní 2020. Hafa beri í huga að á þessu stigi hönnunar séu vikmörk enn mikil vegna óvissuþátta. Gera megi ráð fyrir að þau séu plús 50%/mínus 15%.
Í bókun þökkuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir greinargott svar við fyrirspurninni. Samkvæmt svarinu nemi frumkostnaðaráætlun verkefnisins 4.400 milljónum króna eða 5.449 milljónum miðað við núgildandi byggingarvísitölu (apríl 2023). Hafa beri í huga að á þessu stigi hönnunar eru vikmörk enn mikil vegna óvissuþátta.
„Reynslan hefur kennt borgarfulltrúum að búast beinlínis við því að kostnaður við slík endurbyggingarverkefni fari hressilega fram úr áætlunum. Gangi það eftir gæti kostnaðurinn numið 8.174 milljónum króna miðað við framlagða frumkostnaðaráætlun. Þá er rétt að geta þess að í ofangreinda tölu vantar kostnað við hönnun umræddrar viðbyggingar að innan en sá verkþáttur hefur ekki enn verið kostnaðarmetinn. Fyrirspurnin var lögð fram í ráðinu 24. mars sl. og er til fyrirmyndar að svarið berst innan við mánuði síðar. Svona eiga sviðsstjórar að vera,“ sögðu fulltrúarnir í bókuninni.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu 27. apríl.