„Við höfum við að þróa stafrænar lausnir fyrir heilbrigðiskerfið í langan tíma. Áhersla okkar síðustu tíu árin hefur verið að styðja sem best við innra starf spítalans, þannig að heilbrigðisstarfsfólk hafi sem bestu tólin. Við höfum verið að þróa þar ýmsar lausnir og þar ber hæst Heilsugátt, sjúkraskrárkerfið fyrir spítalann,“ segir Björn Jónsson, deildarstjóri heilbrigðis- og upplýsingatækni á Landspítalanum, um aðdragann að nýja Landspítalaappinu, smáforriti fyrir síma, sem nú er í reynslunotkun á spítalanum. Adeline Tracz, verkefnastjóri nýþróunar, hefur leitt starfið við hönnun og gerð smáforritsins með klínískum ráðgjöfum.
Adeline segir að fyrir 2-3 árum síðan hafi verið ákveðið að færa áhersluna yfir á sjúklinga. „Þá kom upp sú hugmynd að færa gögn og upplýsingar úr innri kerfum nær sjúklingum og aðstandendum. Við fengum styrk frá heilbrigðisráðuneyti til að þróa smáforrit til þess að koma þessari hugmynd áfram ásamt nánasta samstarfsfólki á spítalanum.“ Hún bætir við að á meðan verið sé að þróa forritið hafi það verið tekið í notkun innan spítalans. „Þá var hægt að skoða upplýsingar um lyf, um lífsmörk sjúklings og ýmislegt fleira varðandi dvölina á spítalanum. Við sáum fljótlega að smáforritið gæti nýst öllum á Landspítalanum. Við erum að þróa appið áfram og innleiða það í áföngum,“ segir hún. Í appinu geta sjúklingar veitt öðrum umboð til að nota appið fyrir sína hönd og foreldrar og forráðamenn geta líka fengið aðgang að appinu fyrir börnin sín.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu 27. apríl.