Þegar Andrea Steinsen tók við sem féhirðir Nemendafélags Verslunarskóla Íslands nam tap félagsins fimm milljónum króna. Núna í lok skólaárs er annar bragur á reikningum félagsins, en það skilaði 12 milljóna króna hagnaði. Félagið hefur velt 152 milljónum króna á skólaárinu, sem þykir talsvert gott af nemendafélagi að vera.
„Skólaárið er ekki búið svo veltan á eftir að verða eitthvað hærri. Það á eftir að greiða einhverja reikninga og svo fyrst að það var slatti af hagnaði þá erum við að skoða fjárfestingar fyrir næsta skólaár. Nemendafélög eru auðvitað rekin til að enda á núlli,“ segir Andrea í spjalli við mbl.is en blaðamaður spjallaði við féhirðinn fráfarandi og fráfarandi forseta, Aron Atla Gunnarsson.
„Nemendafélagsgjöldin eru tíu þúsund og það eru þúsund nemendur við skólann. Þannig við fengum í raun tíu milljónir í startgjald. Ég lagði upp með að ef að hver nefnd ætlaði að gera eitthvað skemmtilegt, þá þyrftu þau að safna sér fyrir því. Það var ekki möguleiki að eyða en ekki fá pening inn á móti,“ segir Andrea.
Andrea lagði sömuleiðis upp með að byrja á að borga upp tap síðasta árs og eftir stóðu fimm milljónir.
„Ég get alveg viðurkennt það að Andrea var ekkert skemmtilegust yfir veturinn því hún þurfti að vera mikill harðstjóri. En það skilaði sér,“ segir Aron.
Nemendafélagið er að sögn Arons risastórt batterí og fjölda nefnda sem skipuleggja hina ýmsu viðburði yfir skólaárið. Hæst ber að nefna söngleik Nemó, leiksýningu Listó og söngkeppnina Vælið.
„Þetta er eins og lítið fyrirtæki, eða jafnvel stærra en mörg fyrirtæki á Íslandi. Við erum með mikið af árlegum viðburðum sem við höldum fast í,“ segir Aron.
Söngleikurinn Hvar er draumurinn? kostaði félagið um 11 milljónir en fengu þau 14 milljónir til baka og skilaði hann um 2,8 milljóna króna hagnaði. Þá hélt félagið þrjú böll og að sögn Andreu er veltan fyrir hvert ball í kringum tíu milljónir króna.
Listó setti upp leikritið Það sem gerist í Verzló og velti það líka nokkrum milljónum.
Nemendur við skólann tóku svo þátt í bæði Morfís og Gettu betur, íþróttanefnd félagsins efndi til körfuboltamóts, og svo kom Verslunarskólablaðið út í síðustu viku.
Flestir viðburðir innan skólans eru vel sóttir. „Það er alltaf virkilega góð mæting í upphafi skólaárs. Það fór fram út öllum væntingum og eiginlega allir nemendur skólans mættu á það. En maður finnur að það er slappari mæting eftir það sem líður á skólaárið,“ segir Aron.
Aron og Andrea eru saman í bekk og útskrifast sem stúdentar nú í vor. Aron stefnir ekki strax á háskólanám en ætlar að halda áfram með fyrirtæki sem hann stofnaði ásamt Andreu í frumkvöðlafræðiáfanga við skólann.
Andrea ætlar líka að taka sér hlé frá námi, í að minnsta kosti eitt ár. „Upprunalega ætlaði ég alltaf í háskóla, en núna þegar kom að því að skoða brautirnar aðeins dýpra þá er ég óákveðin hvaða leið mig langar að fara í háskólanum,“ segir Andrea sem ætlar að vinna í fyrirtækinu ásamt Aroni og í fleiri verkefnum.
Blaðamaður spyr hvort Andrea vilji ekki bara taka við af Ásgeiri Jónssyni sem seðlabankastjóri, svo vel hafi gengið hjá henni að rétta út kútnum hjá nemendafélaginu.
„Ég skal taka því. Það yrði minnsta málið,“ segir Andrea hlæjandi. „Það væri heiður að fá að taka við,“ segir Andrea og Aron tekur undir og segist alveg vera til í það.