„Að skoða fýsileika sameiningar Keilis við Fjölbrautaskóla Suðurnesja er hvorki það sem Keilisfólk hefur verið að leita eftir né talið þörf á,“ segir Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Sem kunnugt er eru nú hafnar viðræður um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu nokkurra framhaldsskóla. Stjórnendur skólanna hafa verið settir í málið – en teiknað hefur verið upp að sameina með einhverju móti Menntaskólann og Verkmenntaskólann á Akureyri, Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Sund og Flensborgarskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann, sem áformað er að flytjist í Fjörðinn á næstu árum. Þá hafa nánari tengsl Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis verið sett á dagskrá. Vænst er að línur um þetta skýrist fyrir lok maí.
Keilir, sem er í meirihlutaeigu ríkisins, starfar í krafti þjónustusamnings við menntamálaráðuneytið vegna tveggja brauta á framhaldsskólastigi; til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð og einkaþjálfun. Að auki er samningur vegna aðfaranáms, svokallaðrar háskólabrúar, sem einnig er á framhaldsskólastigi.
„Við munum í bróðerni við stjórnendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja og af opnum hug sinna því sem ráðherra hefur falið okkur. Gerum slíkt með tilliti til þeirra þátta sem eru kjarninn í starfsemi okkar. Styrkleikar Keilis tengjast þróun námsbrauta. Þótt við séum lítill skóli höfum við frá upphafi veitt nemendum tækifæri til bæði bók- og starfsnáms með einstökum námsbrautum, og með nýjum hugmyndum og námsleiðum ögrað hugmyndum og kerfum sem fyrir hafa verið,“ segir Nanna Kristjana.
Stýrihópur menntamálaráðherra hefur, að sögn framkvæmdastjóra Keilis, verið skýr með að ekki stendur til að fækka námsleiðum eða tækifærum nemenda. „Ég vona að vinnan fram undan leiði til þess að ráðherra fái skýrari mynd af stöðunni og innleggið verði nemendum til hagsbóta,“ segir Nanna Kristjana.
„Ég skil þessa tilraun ríkisins til hagræðingar,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
„Ég vona að ef af verður muni sameining leiða af sér enn öflugri skóla og meira námsframboð en nú er í hvorum skóla. Ef þannig má að orði komast þá þarf útkoman í þessu starfi að skila því að einn plús einn verði þrír. Í þessu sambandi tel ég sérstaklega vert að gefa flugkennslunni við Keili gaum og gæta þess að hún verði ekki afgangsstærð. Starfsemi Keilis hefur skipt Suðurnesin miklu máli og haft jákvæð áhrif á samfélagið hér, en upphaflega var stofnun skólans viðbragð við aðstæðum þegar Varnarliðið hvarf frá Keflavíkurflugvelli með starfsemi sína.“