Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu berst nú við sinubruna í Ögurhvarfi í Kópavogi.
Bílar og mannafli frá tveimur stöðvum hefur verið sendur á vettvang og vinnur slökkviliðið að því að ná utan um brunann.
Brunasvæðið er enn að stækka.
Uppfært klukkan 16.28:
Sinubruninn er nú kominn í tré á svæðinu og því hefur þriðji bíllinn verið sendur á staðinn. Eins hefur slökkviliðið beðið um að Breiðholtsbraut verði lokað vegna reyks sem liggur þar yfir.
Þetta staðfestir Jónas Árnason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir mikið af fólki vera í skíðabrekkunni við brunann en það þurfi að gæta að sér.
„Það á ekkert að vera að vaða inn á svona vettvang því að það er bara þeirra heilsa. [...] Þó þetta sé spennandi á að horfa þá er þetta stórhættulegt,“ segir Jónas og varar við reyknum. Að svo stöddu sé þó ekki þörf á því að íbúar í nágreninu óttist að fá reyk inn um glugga.
Jónas býst við því að slökkviliðið verði á svæðinu í að minnsta kosti klukkutíma til viðbótar.