Aðgerðum vegna sinubrunans í Ögurhvarfi lauk á milli 17 og 17.30. Á þriðja tíma tók að slökkva eldinn.
Útkall vegna sinubrunans barst til slökkviliðsins klukkan 15.25 í dag.
Jónas Árnason, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir aðgerðirnar hafa gengið vel. Litlar líkur séu á því að eldurinn taki sig aftur upp en þó alltaf einhverjar.
„Maður veit aldrei, þetta er lúmskt,“ segir Jónas.
Þrjár stöðvar frá slökkviliðinu mættu á staðinn fyrr í dag. Bað slökkviliðið um að Breiðholtsbraut yrði lokað vegna reyksins sem lá þar yfir.
Bruninn náði í tré á svæðinu og dreifðist snögglega til að byrja með.