„Eftir hádegið byrja ég á því að rífa aðeins fyrir lögguna og svo á ég von á fulltrúa frá TM tryggingum á vettvang og þá verður framhald niðurrifs skipulagt,“ segir Birgir Magnússon, starfsmaður brotajárnsendurvinnslufyrirtækisins Furu, í samtali við mbl.is.
Slökkvilið kallaði Birgi á vettvang í nótt og segir hann að niðurrif hafi gengið ágætlega. Gamli slippurinn við Hafnarfjarðarhöfn brann í gær.
Birgir segir aðstæður ekki hafa getað verið betri veðurfarslega séð. Það hafi nærri verið logn og að vindurinn hafi staðið út á sjóinn.
Svo virðist sem eldurinn hafi komið upp í suðurenda gamla slippsins, nær sjónum, en þar var mesti hitinn að sögn Birgis. Hann byrjaði að rífa húsið við norðausturenda þess.
„Við fórum inn hlémegin til að losna við reykinn. Maður vill helst ekki vera þar sem reykurinn er,“ segir hann.
Þá var húsið rifið niður Strandgötuna í átt að miðbænum.
„Við rifum húsið bara í rólegheitunum niður götuna. Þegar ég var búinn að taka þakið og vegginn gátu þeir farið að eiga við eldinn inni í húsinu.
Svona vinna snýst bara um að lágmarka áhættuna og þá er meiri skynsemi í að nota svona tæki en að senda menn inn í eitthvað rugl,“ segir Birgir en hann er orðinn vanur verkefnum sem þessum.
„Þeir hringdu í okkur þegar Icewear brann fyrir fimm árum og þá kom ég þeim upp á lagið. Síðan hef ég farið í einhver þrjú eða fjögur útköll með þeim, þegar þeir föttuðu að þetta væri miklu þægilegra.“