Katrín á leiðtogafund Norðurlanda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heldur til Finnlands á morgun, þar sem forsætisráðherrar Norðurlandanna koma saman til fundar í boði Sauli Niinistö Finnlandsforseta.

Fundurinn fer fram í forsetahöllinni í Helsinki, en þar munu þau Katrín, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs og Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur ræða um öryggis- og varnarmál í ljósi breyttrar stöðu, norræna samvinnu og eindreginn stuðning Norðurlanda við Úkraínu í vörn hennar gegn innrás Rússa.

Þetta er fyrsti leiðtogafundur Norðurlanda síðan Finnar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO) í liðnum mánuði, en Svíar bíða þess enn að fallist verði á inntökubeiðni þeirra í bandalagið.

Samvinna Norðurlanda á sviði varnar- og öryggismála hefur aukist talsvert á undanförnum árum, en sérstaklega eftir innrásina í Úkraínu. Þau hafa einnig verið mjög samstíga í þeim efnum, bæði gagnvart Úkraínu og í alþjóðasamfélaginu.

Gert er ráð fyrir að Katrín snúi aftur til Íslands degi síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert