Óheimilt að kveikja eld á víðavangi

Eldurinn í Ögurhvarfi í gær náði í tré á svæðinu. …
Eldurinn í Ögurhvarfi í gær náði í tré á svæðinu. Hlynur Höskuldsson biður áhorfendur að reyna að halda sig eins fjarri slökkvistarfi og unnt er, slæmt sé að missa mannskap í að stugga við fólki. mbl.is/Bjarni Helgason

„Nú er búið að vera þurrt og nokkuð hlýtt í veðri og þá er töluverð hætta á þessum gróðureldum,“ segir Hlynur Höskuldsson, deildarstjóri á aðgerðasviði hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is um nokkra nýlega sinubruna sem kalla má árlegan vorboða slökkviliða landsins.

Segir deildarstjórinn slökkviliðið biðla til fólks um að fara varlega með eld um þurrkatíðir sem endranær. „Það er hálftskrýtið að tala um langvarandi þurrk á Íslandi en nú er samt búið að vera þurrt og í raun er óheimilt að kveikja eld á víðavangi sem valdið getur almannahættu eða hættu fyrir umhverfið,“ segir hann.

Reykur, mengun og drulla

Öll meðferð opins elds sé gríðarlega varasöm, ekki þurfi nema glóð af sígarettu til að kveikja í sinu svo ekki sé minnst á grill. „Svo getur hiti af bílvél hreinlega kveikt í þegar er mikill þurrkur,“ heldur Hlynur áfram áður en hann víkur talinu að brunanum í Ögurhvarfi í gær.
„Þó að það sé spennandi að sjá slökkviliðið í vinnu getur fjöldi áhorfenda verið óþægilegur og jafnvel hættulegur,“ segir Hlynur.

Stórt svæði við Ögurhvarf brann í gær þar sem eldur …
Stórt svæði við Ögurhvarf brann í gær þar sem eldur breiddist á tímabili mjög hratt út. mbl.is/Bjarni Helgason

„Við sáum þarna í gær að þar var kominn gríðarlegur fjöldi fólks að vettvangi og mjög mörg börn, jafnvel inn á brunasvæðið. Þarna getur verið mikill reykur, mengun og drulla og með örlítilli breytingu á vindátt getur fólk skyndilega staðið í reykjarmekki, það er mjög vont ef við erum að missa mannskap í að stugga fólki frá og ágætt að fólk brýni fyrir börnum sínum að koma ekki nálægt brunum,“ segir hann enn fremur.

Góðborgarar hafi þó komið slökkviliði til aðstoðar við slökkvistarf í Ögurhvarfi í gær sem hann kallar lofsvert eins og leikar stóðu þar. „En þarna sást einmitt hve fljótt eldur getur breiðst út, þetta byrjaði frekar lítið og endaði svo í þessu flæmi,“ segir Hlynur.

Finnst þetta vera að aukast

Aðspurður kveðst hann ekki hafa tölur á hraðbergi um hvort sinubrunum fjölgi nú milli ára, „en manni finnst þetta vera að aukast, eða verða kraftmeira, mér finnst við oftar vera að glíma við stærri gróðurelda núna en það er bara mín tilfinning. Það þarf ekki mikið til að eldur fari úr böndunum og öll meðferð elds er bara varasöm, það er bara þannig,“ segir Hlynur Höskuldsson deildarstjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert