Segir afglæpavæðingu ekki væntanlega

„Hver er það í alvörunni sem stendur í vegi fyrir …
„Hver er það í alvörunni sem stendur í vegi fyrir því að hér verði farið í afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta?“ spyr Þórhildur Sunna Ævarsdóttir í fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Er ekki bara heiðarlegast að hætta þessum fyrirslætti og viðurkenna einfaldlega að þessi ríkisstjórn mun aldrei afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna?“

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, beindi orðum tínum til forsætisráðherra. Hún gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki enn tekið til réttra ráða hvað varðar afglæpavæðingu neysluskammta í ljósi ópíóíðafaraldurs.

Þórhildur minnist frumvarps Pírata um afglæpavæðingu sem fellt var árið 2020. Hún segir að rök þingmanna Vinstri grænna á þeim tíma hafi verið að þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, væri „alveg að fara að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu og þar af leiðandi væri hún handan við hornið“.

„Í dag, þremur árum síðar, heyrum við enn afsakanir í allar áttir um hvers vegna enn og aftur eigi að viðhalda refsistefnu sem allir virðast þó sammála um að sé skaðleg og hafi mistekist,“ segir hún. „Enn og aftur skal einn viðkvæmasti hópur landsins bíða eftir réttarbót, kannski seinna, kannski á morgun, kannski einhvern tímann í haust, alla vega ekki núna.“

Fólk láti lífið á meðan Alþingi situr á rökstólum

Í annarri fyrirspurn sinni til ráðherra segir Þórhildur að í baráttunni gegn andlátum vegna ofskömmtunar af völdum vímuefnanotkunar skipti hver mínúta sem viðbragðsaðilar hafa máli. Því sé skelfilegt að vita til þess að oft séu viðbragðsaðilar ekki kallaðir til vegna ótta um að á sama tíma sé verið að hringja í lögregluna sem mæti á staðinn til að handtaka fólk fyrir brot tengd neyslu vímuefna.

„Því miður er staðan þannig í dag, á meðan ríkisstjórnin situr á rökstólum um einhver útfærsluatriði sem margoft er búið að ræða í velferðarnefnd, margoft hafa verið rædd í þessum sal og er alveg hægt að framkvæma núna strax ef vilji er fyrir hendi,“ segir hún.

„Hver er það í alvörunni sem stendur í vegi fyrir því að hér verði farið í afglæpavæðingu á vörslu neysluskammta?“ spyr Þórhildur. „Hvaða ráðherra stendur í vegi fyrir því að við afgreiðum strax þetta mikilvæga og lífsbjargandi mál?“

Vanda þurfi til verka

Svör Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrri fyrispurninni eru þau að stefna Vinstri grænna í málaflokki afglæpavæðingar væri óbreytt og að flokkurinn telji að refsistefnan sé ekki rétta leiðin til þess að takast á við vímuefnavandann. Hún segir aftur á móti að vanda þurfi mjög til verka.

Hún segir að málin hafi verið rædd fyrr í dag á vettvangi ráðherranefndar, þar á meðal tillögur heilbrigðisráðherra um hvernig hægt væri að spyrna gegn vaxandi fjölda dauðsfalla vegna ópíóíðanotkunar. Katrín segist bera fullt traust til þess að sú vinna skili góðum niðurstöðum.

„Hæstvirtur þingmaður spyr: Hvað stendur í vegi? Ég vil ekki nálgast það þannig,“ segir Katrín í svörum við seinni fyrirspurn Þórhildar. „Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, í þessu máli þarf að vanda til verka og ég tel að hæstvirtur heilbrigðisráðherra sé að gera það.“

Alþingi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að vanda þurfi mjög til …
Alþingi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að vanda þurfi mjög til verka í málaflokki afglæpavæðingar vörslu neysluskammta. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert