Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag, þar sem minnt er á að tími nagladekkjanna sé nú vissulega liðinn.
Samkvæmt lögum er notkun nagladekkja óheimil eftir 15. apríl, en lögreglan hefur almennt séð veitt nokkurn umþóttunartíma á sektunum vegna veðuraðstæðna. Það vakti athygli í síðasta mánuði þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti því yfir að hún myndi ekki byrja að sekta fyrir nagladekkjanotkun fyrr en í maí, þar sem sumum þótti ekki við hæfi að lögreglan tæki af öll tvímæli þar um.
Í tilkynningu lögreglunnar í dag er minnt á fyrri tilkynningu, sem var þá hugsuð sem áminning um að ökumenn þyrftu að fara að huga að dekkjaskiptum og taka nagladekkin undan.
„Ekki er annað að sjá en að við því hafi verið orðið af langflestum og það er vel. Núna er líka kominn maí, það er bara hiti í kortunum og við treystum því að veturinn sé að baki. Séu enn einhverjir að aka um á nagladekkjum ættu hinir sömu að drífa sig, taka þau undan núna og setja naglalaus dekk í staðinn. Sé það ekki gert er viðbúið að sektarbókin fari á loft!“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Samkvæmt sektarreikni lögreglunnar er sektin fyrir hvert stakt nagladekk nú 20.000 krónur. Þar sem langflestir keyra um á fleiri en einu nagladekki er ljóst að sektin getur því numið allt að 80.000 krónum, og því er vissara að skipta.