Sleginn ítrekað í höfuðið með hamri

Óskað var aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu klukkan hálfsex í gær vegna stórfelldrar líkamsárásar í Breiðholti. Þar hafði einstaklingur verið sleginn ítrekað í höfuðið með hamri. Ekki liggur fyrir hverjir voru þar að verki.

Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar, en síðan var tilkynnt um hann á pitsastað í Reykjavík þar sem hann var að panta sér pitsu í spítalafötunum, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um tíuleytið í gærkvöldi óskaði leigubílsstjóri aðstoðar í miðbæ Kópavogs vegna manns sem virtist hafa orðið fyrir slysi. Sá reyndist vera með opið beinbrot á fæti og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar.

Kviknaði í hlaupahjóli

Óskað var aðstoðar vegna minniháttar bruna í hverfi 201 í Kópavogi um fimmleytið í gær. Þar hafði eldur kviknað í rafmagnshlaupahjóli. Sá sem tilkynni um atvikið hafði sjálfur slökkt eldinn og sá slökkvilið um að reykræsta rýmið.

Um svipað leyti var tilkynnt um tilraun til innbrots í hverfi 111 í Breiðholti. Þar höfðu hurðir að nokkrum geymslum verið spenntar upp. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að nokkru hafi verið stolið úr geymslunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert