Svæðið næst Hörpu lokað almenningi

Ljóst er að áhrif þessara lokana verða talsverð á daglegt …
Ljóst er að áhrif þessara lokana verða talsverð á daglegt líf íbúa og atvinnustarfsemi á svæðinu. Þá má einnig gera ráð fyrir umferðartöfum á öllu höfuðborgarsvæðinu í tengslum við akstur sendinefnda á þessum dögum og verða áhrifin hvað mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn í Reykjavík dagana 16. til 17. maí og ætla má að fundurinn hafi nokkur áhrif á daglegt líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu þessa daga. Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja á meðan á fundinum stendur en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli.

Þetta kemur fram í færslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birtir á Facebook.

„Þetta á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem verður lokað almenningi. Einnig má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli á þessum dögum. Áhrifin verða hvað mest síðdegis á þriðjudeginum og miðvikudeginum,“ segir í færslunni.

Á heimasíðu Stjórnarráðsins má sjá kort af svæðinu, sem og í meðfylgjandi frétt, sem verður lokað fyrir umferð á meðan á fundinum stendur, auk upplýsingasíðu vegna götulokana.

Von er á upplýsingum um ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða. Íbúar sem eiga lögheimili og bílastæði innan svæðisins geta haft samband á infodep@utn.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert