Tæpur hálfur milljarður til ungs fólks í erfiðleikum

Frá undirrituninni í dag. Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og …
Frá undirrituninni í dag. Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, skrifuðu undir viljayfirlýsinguna í hádeginu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Verja á 450 milljónum króna í stóraukinn stuðning við ungt fólk í viðkvæmri stöðu. Markmiðið er að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf ungs fólks með geðraskanir af vinnumarkaði og styðja við þau sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Ráðnir verða tíu starfsmenn í verkefnið. 

Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í Ráðherrabústaðnum í dag. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður efnahags- og samkeppnishæfnisviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, og Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, skrifuðu undir viljayfirlýsinguna í hádeginu. 

Veita einstaklingsmiðaðan stuðning

Verkefninu er ætlað að fyrirbyggja brotthvarf ungs fólks af vinnumarkaði og styðja við þann hóp sem tilheyrir svokölluðum NEET-hópi, þ.e. ungt fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun.

Veita á hópnum einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit. Um er að ræða nýjung í vinnumarkaðsúrræðum á vegum Vinnumálastofnunnar og verða tíu atvinnulífstenglar ráðnir í verkefnið. 

Veita á ungu fólki einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit og verða …
Veita á ungu fólki einstaklingsmiðaðan stuðning við starfsleit og verða tíu atvinnulífstenglar ráðnir í verkefnið. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá verður opnað fyrir þjónustu VIRK á sviði atvinnutengingar gagnvart fleiri hópum og atvinnulífstenglum fyrirtækisins verður fjölgað. 

Samtök atvinnulífsins munu liðsinna við að tryggja framboð af störfum fyrir unga fólkið. Auk þess munu samtökin efla fræðslu á vinnustöðum.

Finna störf fyrir alla sem vilja óháð hindrunum

Unnið er eftir hugmyndafræði IPS (e. Individual Placement Support), gagnreyndri starfsendurhæfingu sem skilað hefur árángri hér og landi og á Norðurlöndum. Grunnhugmyndin er sú að hægt sé að finna störf fyrir alla þá sem vilja vinna óháð hindrunum, svo sem af geðrænum eða félagslegum toga.

„Ungir atvinnuleitendur í viðkvæmri stöðu eru þeir sem eru í hvað mestri hættu á að falla út af vinnumarkaðinum til lengri eða skemmri tíma. Það er trú okkar að þetta samstarf muni skila miklum árangri,“ er haft eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Endurskoðun á málefnum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega

Samkomulagið er liður í aðgerðum í tengslum við heildarendurskoðun í málefnum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Tekið er fram í tilkynningu Stjórnarráðsins að frítekjumark örorkulífeyrisþega hafi þegar verið tvöfaldað og ný lög tekin í gildi um lengingu á tímabili endurhæfingarlífeyris.

„Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu að yfirgripsmiklum breytingum fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Samstarfið sem hér er innsiglað í dag er mikilvægur þáttur í umbyltingu kerfisins því við þurfum að fjölga störfum og tækifærum fyrir ungt fólk á vinnumarkaði. Þetta eru aðgerðir sem hafa fljótt áhrif og skipta máli fyrir allt samfélagið,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í tilkynningunni. 

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert