Wilson afhentur björgunarfélaginu

Einar Valsson skipherra stjórnar aðgerðum í brú.
Einar Valsson skipherra stjórnar aðgerðum í brú. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Áhöfnin á Freyju lauk við að færa farminn í gærkvöldi svo því verkefni er lokið,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is um gang mála við strandstað norska flutningaskipsins Wilsons Skaw í Steingrímsfirði.

Vonum framar gekk að færa farm Wilsons en fyrir fram …
Vonum framar gekk að færa farm Wilsons en fyrir fram hafði verið áætlað að verkið tæki sex daga. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Höfðu áætlanir Gæslunnar gert ráð fyrir að allt að sex daga tæki að færa farminn í ákjósanlega stöðu fyrir drátt skipsins en aðgerðin gekk mun hraðar enda varðskipið Freyja búið tveimur færanlegum krönum sem nýttust vel við verkið „auk þess sem þetta var dýrmæt reynsla fyrir áhöfnina líka“, segir upplýsingafulltrúinn. „Þetta gekk vonum framar og Freyja nýttist alveg frábærlega, þetta er enn eitt dæmið sem búnaður um borð í henni sannar gildi sitt og áhöfnin auðvitað líka,“ segir hann.

Saltfarmur Wilsons eftir tilfærslu í lest.
Saltfarmur Wilsons eftir tilfærslu í lest. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Freyja er á leiðinni af svæðinu í dag og nú hefur skipið formlega verið afhent björgunarfélagi þess auk þess sem búið er að sjóða í brunnop í afturlest sem, auk færslu farmsins, tryggir flothæfni skipsins þegar það verður dregið til hafnar,“ segir Ásgeir enn fremur og bætir því við að kafarar á vegum björgunarfélagsins séu nú að skoða botn skipsins aftur.

Wilson Skaw í blíðskaparveðri í Steingrímsfirði.
Wilson Skaw í blíðskaparveðri í Steingrímsfirði. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Við eigum svo von á stöðuskýrslu síðar í dag um það hvenær skipið verði dregið af staðnum, núna er þetta í höndum björgunarfélagsins sem mun svo sjá til þess að skipið verði dregið úr Steingrímsfirði á næstu dögum,“ segir hann að lokum.

Ásgeir segir búnað Freyju, og auðvitað áhöfnina, enn hafa sannað …
Ásgeir segir búnað Freyju, og auðvitað áhöfnina, enn hafa sannað gildi sitt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert