Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sagði á borgarstjórnarfundi í gær að skert notagildi Reykjavíkurflugvallar gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Skert notagildi geti hæglega leitt til margvíslegra erfiðleika og minni þjónustu í farþegaflugi og sjúkraflugi. Reykjavíkurflugvöllur gegni nú mjög mikilvægu hlutverki gagnvart landsbyggðinni varðandi farþegaflug og sjúkraflug. Með slíkri ákvörðun sé vísvitandi dregið úr því hlutverki, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, sagði Kjartan meðal annars á fundinum í gær.
Tilkynnt var í síðustu viku að innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hefðu komist að samkomulagi um að hefja jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði. Hefur málið verið til umfjöllunar síðustu daga.
Óumdeilt sé að fyrirhuguð byggð í Nýja Skerjafirði muni að óbreyttu þrengja að Reykjavíkurflugvelli að sögn Kjartans og skerða notagildi hans verulega vegna þeirra áhrifa sem byggðin mun hafa á vindafar á flugvellinum og í næsta nágrenni hans.
Kjartan nefndi fleiri fleti á málinu, til dæmis í tengslum við hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar í millilandaflugi. Bendir hann á að Reykjavíkurflugvöllur taki sem varaflugvöllur við flestum flugvélum utan Keflavíkurflugvallar þegar á þarf að halda en vellirnir á Akureyri og Egilsstöðum séu af ýmsum ástæðum mjög takmarkaðir að þessu leyti.
Skert notagildi Reykjavíkurflugvallar muni kosta flugfélög, sem sinna flugi til Íslands, milljarða árlega vegna kostnaðar við aukna eldsneytishleðslu í öllu millilandaflugi, til að flugvélar nái til Glasgow ef þær geta ekki lent á Keflavíkurflugvelli. Slíkt muni að sjálfsögðu hækka verð á flugmiðum til Íslands og frá að mati borgarfulltrúans.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.