Alþýðusamband Íslands lýsir vonbrigðum með að ekki sé að finna markvissar aðgerðir til að draga úr verðbólgu eða bregðast við afkomu- og húsnæðisvanda í fjármálaáætluninni fyrir árin 2024-2028.
„Stjórnvöld hafa ekki sýnt nægjanlegt aðhald í útgjöldum. Afkoma hefur hins vegar batnað vegna áhrifa hagsveiflunnar á tekjur. Tekjuauka sem leiðir af stöðu hagsveiflunnar er því ráðstafað í aukin útgjöld fremur en draga úr skuldum. ASÍ telur að ganga þurfi lengra í eflingu tekjustofna hins opinbera og að horfa þurfi m.a. til notkunar auðlindagjalda og umbóta í skattlagningu fjármagnstekna,“ segir í nýrri umsögn ASÍ við fjármálaáætlunina.
Gagnrýnir ASÍ m.a. skort á aðgerðum til að mæta húsnæðisvandanum og stjórnvöld hafi sofið á verðinum gagnvart húsnæðismarkaðnum. Einstaklingum í leiguhúsnæði hafi fjölgað mjög og ekki verið ráðist í umbætur á leigumarkaðinum. „Niðurstaðan er að of margir leigjendur búa við óviðunandi húsnæðisöryggi og of mikla húsnæðisbyrði. Tölur Hagstofunnar benda einnig til þess að þröngbýli hafi aukist en með þröngbýli er átt við að aðilum fjölgar um hvert herbergi. Þröngbýli fer hraðast vaxandi meðal hinna tekjulægstu. Um er að ræða aðra birtingarmynd húsnæðisvanda sem ekki hefur verið vandamál í áratugi á íslenskum húsnæðismarkaði.“
Þá eru áform um að minnka endurgreiðslur á virðisaukaskatti við mannvirkjagerð sögð varhugaverð við núverandi aðstæður. „Hætta er á að áformin geti haft neikvæð áhrif á framboð húsnæðis á næstu árum. Áhrifin eru sérstaklega neikvæð á uppbyggingu óhagnaðardrifinna íbúða. Bjarg íbúðafélag metur að breytingar verði til þess að hækka byggingarkostnað um 10-15 þúsund krónur á hvern fermetra. Áhrifin koma fram í hærra leiguverði,“ segir m.a. í umsögn ASÍ.