Meindýraeyðir hefur náð tveimur minkum í gildru á Seltjarnarnesi en ekki enn fundið greni og við fyrstu athugun fannst enginn minkur í Gróttu. Þetta segir Ingimar Ingimarsson garðyrkjustjóri hjá Seltjarnarnesbæ.
„Hann sagði samt að það þýddi ekki að það væri ekki minkur þarna, hann fann hann bara ekki í fyrstu ferð út í eyjuna,“ segir Ingimar í samtali við mbl.is.
Nokkuð hefur borið á dauðum mávum við göngustíga á Seltjarnarnesi undanfarna daga. Fann einn íbúi hræ af sex mávum í einni gönguferð nýverið.
Minkurinn er erfiður viðureignar og fer meðfram ströndinni alveg yfir til Reykjavíkur. Því getur verið erfitt að góma hann. Meindýraeyðir mun halda áfram störfum næstu vikur.
Ingimar segir bæinn hirða upp hræin af mávunum og senda til rannsóknar ef þeim fari að fjölga mikið. „Ef þetta er einhver mikill fjöldi þarf að athuga hvort eitthvað annað sé í gangi en bara minkur,“ segir Ingimar.
Hann segir ekki sjálfgefið að minkurinn hafi drepið mávana, minkurinn gæti farið að éta af hræjunum . „Hrafninn fer líka strax að kroppa í svona hræ séu þau þarna á annað borð,“ segir Ingimar.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í síðustu viku fékk Seltjarnarnesbær undanþágu frá Umhverfisstofnun fyrir meindýraeyði. Ástæðan er sú að kríustofninn þar er við frostmark. Meindýraeyðinum er heimilt að fara um svæðið meðan á varpi kríunnar stendur með byssu og hund ef þörf krefur.