Verði ekki hægt að stöðva umfjöllun vikum saman

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. Samsett mynd

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, mælir í dag fyrir frumvarpi sínu um fjölmiðlaumfjöllun um dómsmál. Markmið frumvarpsins er að gera ákvæði um frásögn af skýrslutökum skýrari og koma í veg fyrir að hægt sé að stöðva alla umfjöllun um stór dómsmál í margar vikur í senn.

Aðdragandi málsins er sá að árið 2019 voru samþykktar breytingar á lögum um meðferð sakamála og einkamála sem beitt hefur verið til þess að hamla fjölmiðlaumfjöllun meðan skýrslutökur standa yfir. Það gerðist meðal annars fyrr á þessu ári þegar það sem í eðli sínu getur aðeins talist fjölmiðlabann stóð yfir um sjö vikna skeið, við meðferð stærsta fíkniefnamáls sögunnar, að því er segir í tilkynningu. 

Sigmar telur fjölmiðla meðal annars gegna mikilvægu hlutverki í því að standa vörð um traust almennings í garð dómstóla: „Hvaða þýðingu hefur það að dómsmál séu rekin fyrir opnum tjöldum ef enginn má síðan tala um þau? Þú getur litið á fjölmiðla sem fulltrúa þeirra sem ekki hafa tök á því að sitja réttarhöld en hafa samt áhuga á meðferð dómsmála á Íslandi.“

Verði frumvarpið samþykkt verður enn þá óheimilt að birta samtímafrásögn af því sem aðili máls eða vitni skýrir frá við skýrslutöku. Þannig verður stuðlað að því að umfjöllun valdi ekki sakarspjöllum með því að vitni geti fylgst hvert með öðru í rauntíma. Í staðinn verður þó tryggt að bannið gildi eingöngu yfir nauðsynlegan tíma, meðan skýrslutakan stendur yfir, en ekki þegar skýrslutökur fara fram marga daga eða vikur í senn, segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert