Ísland er töluvert undir meðaltali Evrópuríkja hvað viðkemur markaðssetningu nýrra lyfja þegar þau hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu. Annars staðar á Norðurlöndunum eru ný lyf almennt markaðssett fyrr en Evrópumeðaltalið segir til um, og þar eru fleiri ný lyf tekin fyrr í notkun en gerist hér á landi.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýrri samantekt EFPIA, samtaka frumlyfjaframleiðenda í Evrópu, um markaðssetningu nýrra lyfja. Frá þessu er greint á vef Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.
Samantektin er birt í árlegri skýrslu EFPIA, en þar eru lönd borin saman eftir því hve mörg lyf hafa verið heimiluð af þeim sem fengið hafa markaðsleyfi í Evrópu á fjögurra ára tímabili. Í nýjustu skýrslunni má sjá að Ísland hefur tekið í notkun 52 lyf af þeim 168 nýju lyfjum sem fengið hafa markaðsleyfi á tímabilinu, eða 31 prósent. Meðaltal Evrópu er 45 prósent.
Til samanburðar hefur Danmörk, sem er í 4. sæti í upptöku nýrra lyfja, tekið í notkun 127 lyf, eða 76%. Þýskaland hefur tekið flest lyf í notkun, 88%, eða 147 af þessum 168 sem fengið hafa leyfi Lyfjastofnunar Evrópu.
Frumtök hafa lengi bent á þessa stöðu Íslands, að sögn Jakobs Fals Garðarssonar framkvæmdastjóra samtakanna.