Annar mannanna tveggja sem hnepptir voru í gæsluvarðhald þann 29. apríl síðastliðinn hefur verið látinn laus. Í tilkynningu frá lögreglu á vef sínum segir að krafa hafi verið um að halda hinum manninum í gæsluvarðhaldi áfram vegna rannsóknarhagsmuna.
Til rannsóknar er andlát Sofiu Sarmite Kolesnikovu en grunur leikur á að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
„Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á andláti ungrar konu stendur enn yfir. Tveir karlmenn á þrítugsaldri hafa í tengslum við rannsókn málsins sætt gæsluvarðhaldi síðan 29. apríl sl., eins og áður hefur komið fram.
Nú fyrir stundu tók lögreglustjóri ákvörðun um að aflétta gæsluvarðhaldi yfir öðrum karlmanninum. Krafa hefur verið lögð fram fyrir héraðsdómi um að hinn karlmaðurinn sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna,“ segir á vef lögreglunnar.