Þorgrímur Þráinsson segir molna undan tungumálinu sökum aðgerðarleysis á sama tíma og hús íslenskunnar er opnað. Hann spyr hvort þörf sé fyrir fleiri byggingar á háskólasvæðinu og bendir á mikilvægi þess að veita fjármagn í fræðslu fyrir ungmenni og íþróttastarf. Mbl.is ræddi við Þorgrím.
Borgin auglýsir nú eftir deiliskipulag fyrir Norðurslóð, hús Ólafs Ragnars Grímssonar, sem reisa á í Vatnsmýri. Áætlaður kostnaður byggingarinnar er um 14 til 21 milljarðir. Um þetta var fjallað í Morgunblaðinu í gær.
Þá var Edda, hús íslenskunnar opnað í síðustu viku, einnig á háskólasvæðinu.
Í færslu á Facebook bendir Þorgrímur á að vegna aukins framboðs á fjarnámi séu háskólabyggingarnar tómlegri en oft áður. Hann spyr hvort þörf sé fyrir fleiri byggingar.
Þorgrímur, sem sinnt hefur forvarnarstarfi áratugum saman, staðhæfir að fjöldi ungra karlmanna þori ekki í háskólann. Á sama tíma og hús íslenskunnar er opnað molnar undan tungumálinu, segir í færslunni.
„Við erum ekki að sinna unga fólkinu nógu vel. Það vantar frumkvæði þeirra sem geta breytt hlutunum,“ bendir Þorgrímur á í samtali við mbl.is.
Hann segir mikilvægt að veita fjármagn í stuðning við ungmenni, svo sem í fræðslu og íþróttastarf, en þannig megi fyrirbyggja vandamál síðar á lífsleiðinni.
„Við megum ekki líta fram hjá uppeldismálum,“ segir Þorgrímur. Hann hefur rætt við ráðherra og stjórnmálamenn í gegnum tíðina og fengið fínar undirtektir. Viðbrögðin láti þó oft á sér standa. „Sá eini sem mér finnst hafa hlustað og brugðist við af alvöru er Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.“