„Farðu til Íslands frekar en Miami“

Íbúar Grand Forks í Norður-Dakóta eru hvattir til að halda …
Íbúar Grand Forks í Norður-Dakóta eru hvattir til að halda sig frá „klisjuáfangastöðum“ á borð við Miami og drífa sig til Íslands. Skjáskot/Instagram

„Ég vona að allt sé gott og blessað hjá ykkur á landi elds og ísa,“ segir Peter Megler, sjálfstætt starfandi auglýsingagerðarmaður í bænum Grand Forks í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum þar sem þau Sara Becker, samstarfskona hans, hafa dundað sér við að hleypa af stokkunum auglýsingaherferðinni „Spring Break Iceland“, eða Vorfrí á Íslandi, þar sem mörg þekkt kennileiti er að finna, svo sem íslenskt brennivín, álfa og sauði.

„Við vorum að dunda okkur við að búa til óhefðbundna auglýsingaherferð um Ísland, hvort tveggja til gamans og eins til að finna okkur eitthvað að gera á rólegum tíma í bransanum,“ útskýrir Megler fyrir mbl.is.

Naktir í jarðhitalaug undir regnboga

Og þau Becker tefla sannarlega öllu til í herferðinni, sem að sögn Meglers er ætlað að hvetja Bandaríkjamenn á faraldsfæti í hinu sígilda „spring break“, skólatengdu fríi um páskaleytið, til að hunsa „klisjuáfangastaði“ á borð við Miami og gera eitthvað „villt“, fara og njóta íslenskrar náttúru og jafnvel „baða sig nakta í jarðhitalaug undir regnboganum“ segir auglýsingafrömuðurinn og á kannski við norðurljós – en það skiptir ekki öllu, hann bendir alltént á að slíkt bað hljóti að vera mun „svalara en að böðlast sveittur á næturklúbbi í Cancun“.

Auk myndskeiðsins skartar Íslandsherferðin augýsingum og myndskeiðum á Instagram og auglýsingaskilti í Grand Forks þar sem Megler tekur fram að kuldinn núna sé reyndar fjórum gráðum minni en á Íslandi. Á Instagram-myndskeiðinu má sjá „sendiherra“ herferðarinnar á Íslandi, Magnús Magnús Magnússon, hlaupa um götur Reykjavíkur í stuttbuxum með víkingahjálm og sturta íslensku brennivíni í gesti og gangandi.

„Þetta hefur vakið verðskuldaða athygli hér í Norður-Dakóta, ekki síst meðal Íslendingasamfélagsins hérna sem er nokkuð stórt,“ segir Megler og kveður þau Becker hafa mikinn áhuga á samstarfi við Visit Iceland og Icelandair. Þeim áhuga er hér með komið á framfæri.

„Ég vona að þið hafið gaman af þessu,“ segir Peter Megler í Norður-Dakóta að lokum og dæmi þá hver fyrir sig.

Hér er svo heimasíða herferðarinnar, þau Megler og Becker hafa hugsað fyrir öllum aðflugshornum til að senda íbúa Norður-Dakóta til Íslands fremur en Miami.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert