Ríflega einn af hverjum þremur launþegum innan ASÍ og BSRB glímir við þunga byrði vegna húsnæðis og þar af bera rúm 54% einstæðra foreldra þunga byrði af húsnæðiskostnaði.
Vaxandi húsnæðiskostnaður íþyngir sérstaklega leigjendum og ungu fólki og meira en helmingur einstæðra mæðra og ungra kvenna segist búa við slæma andlega heilsu. Þá býr tæplega fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort um þessar mundir og fast að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna.
Þessar upplýsingar koma fram í niðurstöðum viðamikillar könnunar Vörðu-Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á lífsskilyrðum launafólks sem birtar voru í skýrslu í gær. Rannsóknin sem gerð var í febrúar og byrjun mars náði til launþega í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Öllum félagsmönnum stóð til boða að taka þátt og svöruðu tæplega 14.200 eða 8,5% spurningum í könnuninni.
Fjárhagsstaða einstæðra foreldra er sögð vera verst meðal vinnandi fólks.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.