Fluglestin aftur komin á skrið

Runólfur segir nú til skoðunar að hafa endastöð fluglestarinnar í …
Runólfur segir nú til skoðunar að hafa endastöð fluglestarinnar í Smáralind eða Kringlunni.

Runólfur Ágústsson, stjórnarmaður í Fluglestinni þróunarfélagi ehf., segir fyrirhugaða ráðstefnu um verkefnið í haust kunna að marka þáttaskil og koma málinu á hreyfingu á ný eftir nokkra bið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, boðaði þessa ráðstefnu á fundi um framkvæmdir í borginni sem fram fór í Ráðhúsinu síðastliðinn föstudag.

„Við erum líka vör við áhuga ýmissa lestarþróunarfyrirtækja varðandi hugmyndir um lest til Keflavíkur og ætlum okkur að vera með stóran fund til þess að opna þá umræðu betur í september. Nokkur sendiráð eru áhugasöm um að tengja lestarfyrirtæki og lestarþróunaraðila inn í þá umræðu hér á landi,“ sagði Dagur sem taldi ferðaþjónustuna hafa náð vopnum sínum.

Runólfur segir nú til skoðunar að hafa endastöð fluglestarinnar í Smáralind eða Kringlunni. Það sé ódýrara en að láta lestina fara alla leið niður á BSÍ.

Athyglisvert er að setja fluglestarstöð í Kringlunni í samhengi við þær lóðir sem Dagur borgarstjóri segir henta undir hótel.

Kort/mbl.is

Nokkrar þeirra eru endurgerðar á kortinu hér að ofan en í bakgrunni er rammaskipulag í vinnslu fyrir Kringluna. Hótellóðirnar eru austan við Hlemm og sú austasta við fyrirhugaða borgarlínustöð á Krossmýrartorgi á Ártúnshöfða.

Dagur vakti athygli á því að gistinóttum væri að fjölga í Reykjavík. Því væri borgin opin fyrir því að heimila hótelrekstur víða í borginni.

„Við metum stöðuna svo að þrátt fyrir þessi hótelverkefni sem eru í pípunum að þá sé þörf fyrir meira, því annars er hætta á því að ferðaþjónustan þrýsti mjög á íbúðamarkaðinn í gegnum Airbnb og annað. Þannig að þarna þurfum við að hafa jafnvægi,“ sagði Dagur í ræðu sinni.

Runólfur setur þessi orð í samhengi við hótelkvóta í miðborginni.

„Eins og mál hafa þróast þá eru Kringlan eða BSÍ svipaðar staðsetningar hvað varðar nálægð við hótelgistingu í miðborginni. Frekari uppbygging verður væntanlega við Borgarlínuás frá Hlemmi upp Suðurlandsbraut þar sem takmörk hafa verið sett á frekari hóteluppbyggingu í Kvosinni,“ segir Runólfur. Fluglestin á að liggja ofanjarðar frá Keflavíkurflugvelli að Straumsvík. Þaðan stóð til að gera 15-16 km göng að BSÍ. Meðaldýpt skyldi vera um 40 metrar frá yfirborði en til samanburðar er Hallgrímskirkja 74,5 metrar.

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert