„Reynslan er góð og þetta fyrirkomulag styrkir byggðina hér á svæðinu og í Þingeyjarsveit, það er atvinnulífið, og eflir staðinn sem þekkingarsamfélag,“ segir Dagbjört Jónsdóttir, svæðissérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Starfsemi UST og fleiri stofnana er hýst í Gíg, en svo nefnist húsnæðið sem áður hýsti Skútustaðaskóla og seinna hótel á Skútustöðum.
Ríkið keypti bygginguna á Skútustöðum árið 2021 og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra opnaði starfsstöðina formlega í maí á síðasta ári. Og þarna eru nú, undir sama þaki, starfsemi Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (Ramý).
Þingeyjarsveit mun líka nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnueflandi nýsköpun aukinheldur sem Þekkingarnet Þingeyinga er nú þegar þarna með aðstöðu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.