Hólmgeir Baldursson, stofnandi Filmflex, hefur ákveðið að hætta miðlun VOD-leigu á streymisumhverfi Filmflex.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu, sem einnig birtist á vefsíðu fyrirtækisins, rekur hann ástæðurnar fyrir þessu.
Ein af ástæðunum er sú að streymisveitum er skylt samkvæmt lögum að texta eða talsetja allt sitt efni á íslensku án þess að stuðningur komi þar á móti, segir Hólmgeir og bætir við að streymisveiturnar þurfi að lúta óheilbrigðum samkeppnissjónarmiðum.
„Það er því ójafn leikur að þurfa að stunda sín viðskipti í lagaumhverfi sem kemur svo ekki til móts við rekstraraðila með neinum hætti og því óraunhæft að stunda samkeppni við erlendar risa streymisveitur sem þurfa ekki að fara eftir þessum lögum og geta því boðið landsmönnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti á ensku eða öðrum tungumálum,” segir Hólmgeir.
Hann bendir á að Filmflex hafi boðið um 600 kvikmyndir með íslenskum texta sem á kostnaðarverði leggst út fyrir að vera margar milljónir króna, allt unnið í sjálfboðavinnu. Auk þess hafi streymisveitan boðið talsett barnaefni á íslensku.
Hólmgeir segir efnisréttindi einnig kosta sitt og þýðingu á íslensku og textun kvikmynda vera kostnaðarsöm. Nefnir hann að Filmflex hafi sérhæft sig í að sýna eldri kvikmyndaperlur gegn hóflegu gjaldi.
„Sem forráðamaður Filmflex hef ég með greinarskrifum í Morgunblaðið, nú síðast 20 mars sl. ítrekað kallað eftir að markaðurinn sé lagaður að íslenskum streymisveitum, en því miður talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þjóðarinnar sem þó berja sér á brjóst og lofa landsmönnum því að íslenskan muni ávallt vera höfð að leiðarljósi í samkeppni við erlend afþreyingaráhrif, en því miður eru þetta orðin tóm, allavega fyrir þessa streymisveitu sem hefur barist fyrir tilveru sinni, með sérhæfingu, frá því að hún fór fyrst í loftið um mitt ár 2021 og hefur staðið vaktina síðan, án styrkja,” segir hann.