Loka veginum og vara við mögulegu gasútstreymi

Jökulsprungurnar marka yfirborð Mýrdalsjökuls þar sem hann skríður fram.
Jökulsprungurnar marka yfirborð Mýrdalsjökuls þar sem hann skríður fram. mbl.is/RAX

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli.

Jarðskjálfta­hrin­an í Mýr­dals­jökli í morg­un er sú öfl­ug­asta sem hef­ur orðið þar í sjö ár, eða síðan í ág­úst árið 2016. Ekk­ert gos varð þá í jökl­in­um.

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra er bent á að um sé að ræða óvenju stóra jarðskjálfta, eins og mbl.is hafði þegar greint frá. Því sé rétt að fylgjast vel með framvindunni.

Ekki ráðlegt að vera við rætur Kötlujökuls

Segir í tilkynningunni að lögreglan á Suðurlandi hafi í ljósi þessa ákveðið að loka veginum inn að Kötlujökli.

Ekki er heldur talið ráðlegt að vera við rætur Kötlujökuls vegna mögulegs gasútstreymis og hlaupvatns í farvegi Múlakvíslar.

Hvorki hefur þó mælst gosórói né hlaupórói.

Mælar vaktaðir allan sólarhringinn

„Í kringum Kötlu er mælanet sem samanstendur m.a. annars af jarðskjálfta-, aflögunar- og vatnamælum. Þessir mælar eru vaktaðir allan sólarhringinn af náttúruvársérfræðingum Veðurstofunnar og gefnar út tilkynningar ef snöggar breytingar verða á þeim sem mætti túlka sem skammtímafyrirboða að eldgosi eða jökulhlaupi, t.d. órói á jarðskjálftamælum,“ segir í tilkynningunni.

Þá er ítrekað að slíkur órói sjáist ekki á mælum núna.

„Ekki er hægt fullyrða neitt um það hvernig þróun virkninnar verður og fylgist náttúruvárvöktun Veðurstofunnar áfram náið með málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert