Losun koltvísýrings frá hagkerfinu eykst um 20%

Losun koltvísýrings kemur fyrst og fremst til vegna notkunar jarðefnaeldsneytis …
Losun koltvísýrings kemur fyrst og fremst til vegna notkunar jarðefnaeldsneytis og kola. mbl.is/Ingólfur

Miðað við bráðabirgðatölur var losun koltvísýrings (CO2) vegna reksturs innan hagkerfis Íslands 5.244 kílótonn á árinu 2022, sem er aukning um 21,2% miðað við árið á undan þegar losunin var 4.328 kílótonn.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. 

Þar kemur fram að árið 2021 var málmiðnaður stærsta uppspretta koltvísýrings, 1.757 kílótonn. Þá losuðu flutningar með flugi, flutningar á sjó, fiskveiðar og heimilin hvert í kringum 450 kílótonn. Losun frá málmiðnaði hefur haldist í kringum 1.700 kílótonn frá 2012.

Losun frá flugi virðist hins vegar hafa aukist úr 466 í 1.332 kílótonn á milli 2021 og 2022.

Hámark árið 2018

Losun koltvísýrings náði hámarki árið 2018 (7.663 kílótonn) en það ár var áberandi mikil losun frá flugrekstri (3.568 kílótonn).

„Gjaldþrot í greininni ásamt samgöngutakmörkunum vegna kórónuveirufraraldursins eru hins vegar ástæða þess að losun 2021 var sú minnsta frá árinu 1995, 466 kílótonn,“ segir í tilkynningunni. 

Þá var losun koltvísýrings í vegasamgöngum 851 kílótonn árið 2021, eða um 20% af heildarlosun hagkerfisins.

Bráðabirgðartölur fyrir 2022 sýna að losunin er komin upp í 883 kílótonn sem er sambærileg við losun árið 2018.

Árið 2021 var losun frá bílum í rekstri heimila 471 kílótonn og losun fyrirtækja í flutningarekstri 96 kílótonn en undir þá atvinnugrein falla strætisvagnar, rútur og bílar í rekstri aðila í flutningarekstri.

Losun frá öðrum atvinnurekstri var 284 kílótonn. Í þessari tölu er ekki talin losun vegna aksturs ferðamanna hérlendis sem var 59 kílótonn árið 2021 en mældist mest 107 kílótonn árið 2018.

Frábrugðnar tölum Umhverfisstofnunar

Tölurnar eiga eingöngu um losun koltvísýrings en þar til viðbótar hefur losun metans, nituroxíðs og flúorgasa umtalsverð hlýnunaráhrif þótt losun sé minni í tonnum talið.

Þá kemur fram að losun frá hagkerfi Íslands er frábrugðin tölum sem birtar eru í loftslagsbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun gefur út og sendir til loftslagsráðs Sameinuðu Þjóðanna. 

Uppfært: Í upphaflegum tölum Hagstofunnar kom fram að aukningin hefði verið 19,7%. Rétt er hins vegar að aukningin var 21,2%. Hefur Hagstofan uppfært sínar tölur samkvæmt því og var fréttin löguð í samræmi við það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert