Nemendur í viðburðastjórnun við Fjölbrautaskólann í Garðabæ efndu á dögunum til dósasöfnunar fyrir Einstök börn og söfnuðust heilar 165 þúsund krónur.
Söfnunin var hluti af lokaverkefni nemendanna sem er tileinkað félaginu.
Nemendur buðust til þess að sækja dósir heim til fólks, auk þess sem þeir tóku síðastliðinn fimmtudag á móti dósum frá nemendum, starfsfólki og bæjarbúum við skólann. „Viðburðurinn heppnaðist fullkomlega þó svo að okkur hafi brugðið verulega um morguninn þar sem allt var snævi þakið,” segir Írena Ásdís Óskarsdóttir sem kennir áfangann.
Hópurinn flokkaði allar dósirnar í skólanum og fékk aðstoð hjá starfsfólki áhaldahúss bæjarins til að ferja alla sekkina. Síðastliðinn föstudag millifærðu nemendurnir síðan 165.000 krónur á reikninginn hjá Einstökum börnum.
Vonast er til þess að viðburðurinn verði árlegur, þar sem áfanginn er kenndur á hverju vori.