Norræn staðfesta undirstrikuð

Ulf Kristersson, forsæitsráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Volodimír Selenskí, …
Ulf Kristersson, forsæitsráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, Sauli Niinistö, forseti Finlands, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. AFP/Heikki Saukkomaa / Lehtikuva

Leiðtogafundur Norðurlanda í Helsinki í gær var einkar gagnlegur að mati Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, bæði vegna þess að Volodimír Selenskí var óvæntur gestur fundarins, en einnig vegna þess að þar áttu forsætisráðherrarnir hreinskilnislega umræðu um grundvallarhluti og hvernig þeir gætu best leyst þá í sameiningu.

„Norðurlöndin hafa átt í djúpstæðri samvinnu áratugum saman, en öryggismálin voru af sögulegum ástæðum yfirleitt undanskilin. Þannig er það ekki lengur, Úkraínustríðið breytti því,“ segir Katrín. Þar að baki búi ekki aðeins kalt hagsmunamat, heldur eigi Norðurlöndin sameiginlegt gildismat.

Beðið eftir Selenskí

Þetta sagði Katrín í viðtali við Morgunblaðið í sendiráði Íslands í Helsinki skömmu eftir einkafund hennar með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í forsetahöll Finnlands í gær. Hann fór fram eftir sameiginlegan leiðtogafund hans með forsætisráðherrum Norðurlanda, sem Sauli Niinistö Finnlandsforseti bauð til. Ekki var gert opinbert fyrr en á síðustu stundu að Selenskí yrði sérstakur gestur fundarins.

„Auðvitað vissum við að Selenskí væri að koma, þó það hvíldi leynd yfir dagskránni, en auðvitað vitum við líka að þetta getur alltaf klikkað, svo af þeim ástæðum var líka best að segja sem minnst,“ segir Katrín. „En þetta var mjög flott frumkvæði hjá Sauli Niinistö, forseta Finnlands, sem kallar til þessa fundar.“

Staðfesta Norðurlanda

Hvaða þýðingu hafði fundurinn?

„Fundurinn átti mörg markmið. Í fyrsta lagi til þess að undirstrika að Norðurlöndin hafa staðið saman í gegnum þetta allt saman og að við erum staðföst í þeim stuðningi. Við höfum verið í samtali um stuðninginn við Úkraínu og notuðum fundinn til þess að stilla saman strengi.

Og gott betur, því við ræddum líka framhaldið. Þá fyrst og fremst friðartillögurnar, sem Selenskí hefur lagt fram, og hvernig er raunhæft að vinna að þeim, en líka leiðtogafund Evrópuráðsins, sem haldinn verður á Íslandi eftir tvær vikur, þar sem Úkraína verður helsta fundarefnið,“ segir forsætisráðherra.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka