Súkkulaðigrísir komust í feitt

Bræðurnir Skúli og Aðalsteinn Einarssynir biðu spenntir í röð eftir …
Bræðurnir Skúli og Aðalsteinn Einarssynir biðu spenntir í röð eftir páskaeggjum. Mbl.is/Viðar Guðjónsson

„Við erum bara svo miklir páskaeggjamenn og súkkulaðigrísir," segir Skúli Einarsson um ástæður þess að hann var staddur í röð á lagersölu á páskaeggjum frá Nóa Siríus ásamt bróður sínum Aðalsteini Einarssyni.

Voru þeir ásamt hundruðum manna á Hesthálsi þegar blaðamann bar að garði. Gat fólk sem keypt sér eins mikið af páskaeggjum og pokinn gat borið fyrir litlar 2.000 kr.  „Maður mun þó gefa með sér,“ áréttaði Aðalsteinn og hló.

„Við erum með 19 páskaegg,“ sagði ungur drengur sigri hrósandi þegar hann gekk framhjá í fylgd pabba síns.

Hundruð manna voru í röð sem liðaðist um.
Hundruð manna voru í röð sem liðaðist um. Mbl.is/Viðar Guðjónsson

Heyra mátti á fólki að það hafi komið því á óvart hve margir hefðu mætt á lagersöluna. „Ég hélt að þetta yrðu nokkrar hræður, sagði einn í tveggja manna tali yfir hópinn. Já ég líka sagði annar" og bætti við. „En það voru allir að tala um þetta í vinnunni. Þess vegna mætti ég.“

Páskaeggin notuð í brúðkaupinu  

Mæðurnar María, Kristín Lilja voru mættar ásamt dætrum sínum og var hver þeirra með páskaegg eins og þær gátu borið.

Sandra Sól, María Lilja, Natalía Steinunn og Viktoría fengu tugi …
Sandra Sól, María Lilja, Natalía Steinunn og Viktoría fengu tugi páskaeggja með sér á lagersölunni. Mbl.is/Viðar Guðjónsson

Hvað hefur maður að gera við öll þessi páskaegg? „Ég ætla bara að borða þetta og gefa, ættingjum og börnunum að sjálfsögðu,“ segir María.

„Ég ætla að spara þetta fyrir brúðkaupið mitt sem er í sumar,“ segir Kristín Lilja.

Viktoríu Lilju fannst þetta gaman en hin tíu ára Natalía Steinunn var hins vegar sannfærð um að hún myndi fá illt í magann við að innbyrða allt þetta magn.

Karlarnir í vinnunni fá að njóta 

„Ég kom til að kaupa páskaegg handa köllunum í vinnunni. Maður þarf að vera góður við þá," segir Hafdís ósk Guðlaugsdóttir, fjármálastjóri hjá Malbikunarstöðinni og hlær við.

Hafdís Ósk ætlar að gefa körlunum í vinnunni páskaegg.
Hafdís Ósk ætlar að gefa körlunum í vinnunni páskaegg. Mbl.is/Viðar Guðjónsson

Hefur alltaf lyst á páskaeggi 

Una Björk Jóhannsdóttir, gæðastjóri hjá Nóa Siríus, segir að mæting hafi verið langt umfram væntingar. „Við bjuggumst engan veginn við þessu,“ segir Una.

Spurð segist hún ekki hafa áhyggjur af því að fólk muni einfaldlega fá nóg af páskaeggjum eftir að hafa gengið út með pokafylli. „Nei þú hefur alltaf lyst á Nóa páskaeggi,“ segir Una

Fólk sópaði páskaeggjum úr hillunum.
Fólk sópaði páskaeggjum úr hillunum. Mbl.is/Viðar Guðjónsson

Húsið var opnað nokkru fyrir auglýstan opnunartíma klukkan 16 þar sem röðin var þegar orðin nokkuð löng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert