Lager Bæjarins beztu pylsur við Austurstræti verður „troðfylltur“ áður en að leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn dagana 16. og 17. maí. Baldur Ingi Halldórsson, eigandi veitingakeðjunnar, kveðst búast við miklu margmenni í miðborg Reykjavíkur og vonast til þess að sjá sem flesta þjóðarleiðtoga við matarvagninn.
Um 40 þjóðarleiðtogar hafa þegar boðað komu sína á leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu. Þar á meðal eru Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands.
Baldur segir starfsmenn Bæjarins beztu munu undirbúa sig vel fyrir komandi daga. Sumarið sé að byrja og því séu sífellt fleiri ferðamenn á stjá í miðborginni. Þá verði margt um manninn þegar leiðtogafundurinn verður haldinn.
„Ég held að það verði brjálað að gera. Ég býst við að þetta verði frábært fyrir okkur. Helsta vandamálið eru birgðaleiðir því það eru ekki íslenskir björgunarsveitarmenn sem eru að loka þessu. Þetta verður örugglega tekið fastari tökum en vanalega,“ segir Baldur en eins og áður hefur komið fram verður hluta miðborgarinnar lokað fyrir bílaumferð þegar leiðtogafundurinn verður.
„Við erum aðallega að undirbúa okkur til þess að koma vörum á staðinn. Við búum svo vel að því að vera nýbúin að opna í Austurstrætinu líka. Við sjáum fyrir okkur að geta troðfyllt kjallarann þar, það er svo góð geymsla þar og þannig haldið þessu fullu en þetta verður örugglega bölvað bras.“
Að sögn Baldurs hafa birgðir þó aldrei klárast á matarvagninum vinsæla.
„Við göngum oft tæpt á en þetta hefur aldrei klikkað. Við höfum aldrei ekki átt pylsur, eða brauð.“