„Treysti niðurstöðum sérfræðinganna í þessu“

Einar Þorsteinsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Reykja­vík.
Einar Þorsteinsson, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Reykja­vík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í þess­ari yf­ir­lýs­ingu er verið að árétta stefnu Fram­sókn­ar­flokks­ins um að flug­völl­ur­inn verði að geta þjónað sínu hlut­verki og að það sé staðið við sam­komu­lagið að rekstr­arör­yggi hans sé ekki skert á meðan hann er í Vatns­mýr­inni,“ seg­ir Ein­ar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Reykja­vík, í sam­tali við mbl.is. 

Þing­flokk­ur og sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­ar Fram­sókn­ar sendu frá sér yf­ir­lýs­ingu í morg­un þar sem hóp­ur­inn lagði áherslu á að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur skapi ör­yggi fyr­ir inn­an­lands- og milli­landa­flug, mæti þörf­um sjúkra­flugs og að brú­in á milli lands­byggðar og höfuðborg­ar verði áfram í Vatns­mýr­inni, þar til ann­ar jafn­góður eða betri kost­ur finnst.

58 manns und­ir­rituðu yf­ir­lýs­ing­una, þar á meðal Ein­ar. 

Verður gripið til mót­væg­isáhrifa

Niðurstaða starfs­hóps sem Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif á flug- og rekstr­arör­yggi Reykja­vík­ur­flug­vall­ar var birt í síðustu viku.

„Niðurstaðan er mjög skýr. Það er óhætt að byggja þarna í Skerjaf­irði, að því gefnu að gripið verði til mót­vægisaðgerða. Þá verða áhrif­in eng­inn á sjúkra­flug, eða inn­an­lands­flug.“

Ein­ar seg­ir að með yf­ir­lýs­ing­unni vilji Fram­sókn árétta stefnu flokks­ins, „og borg­ar­stjórn­ar­flokk­ur Fram­sókn­ar skrif­ar und­ir þessa yf­ir­lýs­ingu að sjálf­sögðu. Þetta er okk­ar stefna“.

Hann bend­ir á að Isa­via, innviðaráðuneytið og Reykja­vík­ur­borg sendi frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um að gripið verði til mót­vægisaðgerða, en lesa má nán­ar um til­lög­ur starfs­hóps­ins um mót­vægisaðgerðir hér.

Mik­il­væg upp­bygg­ing

Tel­ur þú þá að ný byggð í Skerjaf­irði og flug­völl­ur­inn geti átt far­sæla framtíð?

„Já, ég treysti niður­stöðum sér­fræðing­anna í þessu. Þess vegna var mik­il­vægt að fara í þessa vinnu. Þetta er þeirra niðurstaða – að þetta sé í lagi – og ég treysti því.“

Ein­ar seg­ir mik­il­vægt að muna að í Skerjaf­irðinum séu uppi áform um að byggja hús­næði fyr­ir fyrstu kaup­end­ur og Fé­lags­stofn­un stúd­enta. Þá séu einnig áform um að Bjarg, bygg­ing­ar­fé­lag verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar, byggi þar hag­kvæmt hús­næði. 

„Þetta er gríðarlega mik­il­væg upp­bygg­ing sem að þarf að eiga sér stað. En hún hefði ekki farið af stað nema það væri al­veg tryggt að rekstr­arör­yggi flug­vall­ar­ins yrði ekki skert.“

Taki 20-25 ár að byggja nýj­an flug­völl 

Í yf­ir­lýs­ing­unni er vísað til sam­komu­lags rík­is og borg­ar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstr­arör­yggi á Reykja­vík­ur­flug­velli næstu 20-25 árin. 

Ein­ar seg­ir að það sé sá tími sem sér­fræðing­ar telja að taki til að byggja nýj­an flug­völl, til dæm­is í Hvassa­hrauni. 

„Ef að sú ákvörðun yrði tek­in í dag – að fara í þann flug­völl – þá tæki það þann tíma að hanna og fjár­magna og byggja hann. Þannig að það eru svo sem eng­in ný tíðindi í því,“ seg­ir Ein­ar að lok­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert